133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:18]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var mikil spenna á sumarmánuðum í íslensku efnahagslífi eins og við munum öll. Ríkisstjórnin sendi út skilaboð með það að markmiði að viðhalda stöðugleikanum í íslensku samfélagi. Hverjir voru tillögur stjórnarandstöðunnar þá? Hverjar voru þær tillögur af hálfu Samfylkingarinnar? Engar nema innlegg þeirra í þá umræðu voru hörð mótmæli gegn aðhaldsstefnu ríkisstjórnarinnar, það væri bara ekkert vit í þessu. (EMS: Eðlilega.) Ég get upplýst hv. þm. Einar Má Sigurðarson um að það er búið að aflétta því útboðsbanni sem sett var á í sumar sem var mjög erfitt fyrir mörg samfélög. Ég hef það hins vegar fyrir satt frá Vegagerðinni fyrir norðan að það útboðsstopp sem sett var á seinkaði í engu þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru t.d. hvað varðar Dettifossveg eða Hófaskarðsleið. Þau mál eru umdeild heima fyrir og mikilvægt að leyst verði úr þeim á næstu missirum.