133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:30]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom á daginn að hv. þm. Jón Bjarnason kaus að svara hvorugri spurninga minna. Ég lít þá svo á að þessi mikla samstaða stjórnarandstöðunnar sé þegar fyrir bí og ekki megi mikils vænta af þeirra samstöðu í störfum þingsins það sem eftir lifir vetrar, en nóg með það.

Ég spurði hann líka út í það hvort hann teldi það góðan árangur að 100 milljarðar væru í tekjuafgang núna fyrir árin 2005 og 2006. Hann svaraði ekki þeirri spurningu. Ég vil kannski tengja þennan mikla árangur við hugsanlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að lækka matvælaverðið. Nú höfum við notað mikið af þessum tekjuafgangi á síðustu árum til að borga niður skuldir. Sparnaður ríkissjóðs í formi vaxtagjalda er hugsanlega að tryggja okkur það að við getum olnbogað okkur áfram í slík verkefni án þess að taka lán eða taka frá öðrum verkefnum. Með öðrum orðum, ábyrg stefna og aðhald í ríkisfjármálum er að tryggja að núverandi ríkisstjórn getur stórlækkað matarverð á næstu missirum fyrir íslenska þjóð vegna þess að hún hefur sýnt ábyrgð og skynsemi í ríkisrekstrinum. Vaxtagjöld hafa lækkað stórlega eftir niðurgreiðslu skulda. Ég leyfi mér því að spyrja hv. þm. Jón Bjarnason: Telur hann þessa leið ríkisstjórnarinnar við að ná fram jafngóðum kjörum og bótum fyrir umbjóðendur sína, landsmenn alla, skynsamlega eða ekki? Telur hann árangur ríkisstjórnarinnar — að tryggja 100 milljarða í tekjuafgang á þessum tveimur árum, sem skapar miklu möguleika til að mæta þörfum fólksins í landinu — góðan árangur eða ekki? Ég vil fá svar við þeirri spurningu, hæstv. forseti.