137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

niðurgreiðsla á rafmagni til húshitunar.

25. mál
[13:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að margt hefur sem betur fer áunnist í því að lækka húshitunarkostnað í landinu, m.a. vegna þess að varið hefur verið til þess auknum fjármunum. En því miður er það þannig að á allra síðustu missirum hefur þetta að einhverju leyti gengið til baka og það er miður vegna þess að það kemur illa við pyngju margra heimila í landinu.

Ég vil þó sérstaklega beina athygli minni að því að einn hluti landsins hefur þó kannski orðið harðast úti og það eru hin strjálbýlustu héruð. Við breytingar á skipulagi í orkumálum fyrir nokkrum árum var ákveðið að gera breytingar sem leiddu til þess að orkukostnaður á svæðum þar sem búa 200 eða færri, strjálbýlustu svæðunum, hefur verið að hækka.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki séu uppi áform um að reyna að leiðrétta þetta. Það er alveg ljóst mál að skipulagsbreytingarnar á sínum tíma leiddu til þess að húshitunar- og raforkukostnaður jókst óeðlilega mikið á þessum svæðum.