139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:42]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur kærlega fyrir þetta tímabæra frumvarp sem ég get tekið undir að mestu ef ekki öllu leyti. Þótt þingsköpum hafi nýlega verið breytt var það, eins og menn muna kannski, gert í miklum ágreiningi við minn flokk, ekki hvað síst vegna þeirra takmarkana á ræðutíma sem þar voru. En ég tel að margt hafi tekist miður í þeim breytingum og er sammála því að það þarf enn að breyta miklu. Og það sem hér er stungið upp á gæti einmitt leitt til nýrrar og betri umræðuhefðar. Ég tel að þetta sé spennandi tilraun sem vert sé að fara í.

Það er eitt atriði sem mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um og það er undantekningin, sem hér er gert ráð fyrir, varðandi frumvörp til stjórnskipunarlaga. Nú er það svo að mín eina upplifun af málþófi hér á Alþingi Íslendinga var í fyrravor, fyrir kosningar, þegar sjálfstæðismenn komu í veg fyrir, með skipulögðu málþófi, að farið yrði í atkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá, (Forseti hringir.) m.a. hvað varðaði þjóðaratkvæði og auðlindir (Forseti hringir.) í þjóðareign o.fl. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður ekki nauðsynlegt að setja ramma (Forseti hringir.) um þá umræðu líka?