141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

145. mál
[12:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Hún er því miður allt of stutt og enginn nefndarmaður í velferðarnefnd við hana nema formaðurinn. Ég vona að formaður geti þá flutt umræðuna hér inn í nefndina. Til þess er umræðan að nefndarmenn geti kynnt sér þau mál sem um er að ræða.

Mér finnst þetta frumvarp og þessi lög bera vott um mjög slaka verkstjórn hjá hæstv. ríkisstjórn. Frumvarpið er lagt fram mjög snemma. Það er komið nærri heilt ár síðan það var lagt fram en það var svo ekki afgreitt fyrr en í júní. Það er ekkert yfirmáta flókið í sjálfu sér þannig að þetta eru ekki alveg nógu góð vinnubrögð, frú forseti.

Svo vildi ég bara hreinlega að frú forseti minnti nefndarmenn í viðkomandi nefndum á að vera við umræðuna. Mér finnst það eiginlega allt að því skylda þeirra. Það er reyndar skylda allra þingmanna að mæta á þingfundi en sérstaklega nefndarmanna þegar verið er að ræða mál sem er að fara til þeirra.

Það sem ég vildi ræða örstutt er þetta högg sem ég nefndi. Vissir aðilar, öryrkjar, aldraðir og aðrir, þurfa að borga 44 þús. kr. hámark á 12 mánuðum og það byrjar að tikka strax 1. janúar. Sjúklingar sem lenda í því að þurfa að taka lyf 2. janúar geta verið nýbúnir að standa í alls konar kostnaði í desember og í nóvember þess vegna. Kerfið í dag er alls ekki gott, það er mjög slæmt. Þetta er mikið til bóta en fyrsta kastið borga þeir í nóvember og desember helling samkvæmt gamla kerfinu hjá læknum og úti um allt. Síðan kemur þetta kerfi í gildi og þá þarf hann að borga að fullu upp að 44 þús kr., og þeir sem eru vinnandi upp að 66 þús. kr., ef lyfið er dýrt. Sum lyf eru fantadýr, frú forseti, og þetta finnst mér að nefndin þurfi að skoða og sjá hvort ekki sé hægt að milda þetta áfall fyrir sjúklinga.

Það sem mig langar til að ræða sérstaklega, frú forseti, er lítill áhugi hv. þingmanna á svona veigamiklu máli. Það er eiginlega dapurlegt, þetta er mjög stór hluti af velferðarkerfinu. Það má vel vera að núgildandi kerfi sé svo flókið að ekki nokkur maður skilji í því og enginn maður láti sér detta í hug að ræða það og halda að þetta sé svipað. Ég fer stundum til læknis og hingað og þangað í heilbrigðiskerfinu og ég borga þetta og hitt. Stundum spyr ég: Af hverju borga ég þetta en ekki eitthvað annað? Ég fæ aldrei svar vegna þess að kerfið er svo flókið.

Ég tel að þetta frumvarp og þessi lög sem við erum að ræða breytingu á séu mjög mikilvægur hluti af velferðarkerfinu og komi ekki síður en skattkerfið við alla borgara landsins meira og minna. Mér finnst að menn eigi að sýna því meiri áhuga en kemur fram í þingsalnum.