142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er þannig varðandi endurskoðunarákvæðið að með því er reynt að koma til móts við sjónarmið um að taka málið til skoðunar og láta reyna á hvernig hefur tekist til með það eftir nokkur missiri. Ástæðan fyrir því að mér finnst síður koma til greina að hafa öll þessi heimildarákvæði tímabundin og láta heimildina hreinlega renna út, nema hún verði sérstaklega framlengd, er sú að málið er hugsað sem viðvarandi upplýsingasöfnun, þ.e. ekki eingöngu til þess að taka á þeim skuldavanda sem er til staðar í dag, heldur líka að hafa til framtíðar efnahagslegar vísbendingar sem geta sagt mikið um það sem er að gerast í hagkerfinu. Með því að birta þær ársfjórðungslega geta menn vonandi séð ef það á sér stað ofhitnun einhvers staðar, sérstaklega varðandi uppsöfnun skulda eða aðra slíka þætti. Af þeirri ástæðu er ekki lagt upp með að þetta sé átaksverkefni sem verði lokið og hægt sé að hverfa frá þegar það hefur verið klárað, heldur að við verðum komin með viðvarandi mæla sem hægt verður að líta til þegar menn meta þennan undirþátt í efnahagslífinu.