143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[11:43]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar leigufélagið Klett hefur ekki enn þá verið gengið frá formlegri stofnun efnahagsreiknings þess. Það er verkefni sem er núna á lokametrunum. Samkvæmt ályktun Alþingis þarf að setja reglugerð um samþykktir Kletts og stjórnun og hún er sem sagt núna á lokametrunum. Það var einmitt sérstaklega mikil áhersla lögð á það í meðferð allsherjarnefndar þegar þessar breytingar voru gerðar á lögum um Íbúðalánasjóð að Klettur yrði eins óháður Íbúðalánasjóði og hægt væri.

Það hefur líka verið til skoðunar varðandi fjármögnun og uppsetningu efnahagsreiknings Kletts hvernig hægt sé að koma því fyrir innan þess ramma sem ESA hefur sett varðandi lánveitingar til leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Eins og oft vill vera telur maður að eitthvað eigi að vera klippt og skorið en svo kemur ýmislegt upp á í ferlinu.

Ég get líka sagt að ég tel að við hefðum getað gert betur við það að koma eignum sem Íbúðalánasjóður hefur verið að fullnusta aftur í útleigu eða sölu. Þess vegna hefur það verið viðvarandi verkefni hjá mér og starfsfólki velferðarráðuneytisins að koma því á framfæri og ég veit að forstjóri Íbúðalánasjóðs hefur tekið það mjög alvarlega að tryggja að svo verði. Það hefur verið áhersluefni líka hjá mér gagnvart nýjum stjórnarformanni Íbúðalánasjóðs að það sé forgangsmál að tryggja þetta.

Eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að kostnaður fyrir ríkið verði 1,5 milljarðar í fjárauka núna og fjárlögum næsta árs vegna kostnaðar fyrir Íbúðalánasjóð að fullnusta þessar eignir. (Forseti hringir.) Þess vegna er mjög brýnt að sjóðurinn fái tekjur á móti.