143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[12:22]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni og hans flokki fyrir þessa tillögu. Ég get ekki annað en verið sammála tillögunni að langflestu leyti ef ekki öllu. Ég vil reyndar í sambandi við það sem hér hefur komið fram með Íbúðalánasjóð taka heils hugar undir það, það er með ólíkindum hvað gengur hægt að losa um eignir. Ég veit að verktakar og ekki síst einyrkjar víða úti á landi hafa reynt mikið til þess að kaupa íbúðir af Íbúðalánasjóði meðan atvinnuástandið hefur ekki verið gott, en það hefur gengið ótrúlega illa á undanförnum árum. Og ég hélt reyndar að þetta nýja fasteignafélag, Klettur, væri bara komið til starfa og farið að vinna á fullu, en mér heyrist nú að það sé að minnsta kosti alveg að gerast og fagna því.

Varðandi lóðaverð hjá sveitarfélögum og það sem fram hefur komið hér að mönnum finnist að það megi vera lægra, vil ég benda mönnum á að gatnagerðargjöld hjá sveitarfélögum reiknast á allar byggingar í þessum hverfum, þannig að ég held að það sé ákveðinn misskilningur á ferðinni. Þegar sveitarfélög reikna út gatnagerðargjöld eru þau reiknuð á allar byggingar í hverfunum og deilast niður á þau. Það eru að sjálfsögðu reiknuð full gatnagerðargjöld hjá þeim sveitarfélögum sem byggja leikskóla og önnur þjónustuhús.

Ég fagna þessari tillögu, en hér hafa þingmenn talað um ábyrgð stjórnvalda og nú var þessi stjórnmálaflokkur við stjórnvölinn síðustu fjögur ár. Ég velti fyrir mér: Af hverju var ekki búið að gera eitthvað í þessu? Af hverju létu þau ekki verkin tala? Ég fagna þessari tillögu núna. En hví í ósköpunum gerðu þau þetta ekki meðan þau réðu ríkjum?

Ég tek það fram að ég veit ekki annað, eins og hefur komið fram hjá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, en að verið sé að vinna í flestum þessum málum, þannig að það sé alveg á hreinu.