144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Aldrei áður hefur tekjufrumvarp ríkisstjórnar komið jafn snemma fram. Það ætti að gefa okkur möguleika á því að fara vel yfir þann þátt málsins eins og aðra þrátt fyrir að margir hafi dottið út í mikinn popúlisma í þessari umræðu. (Gripið fram í: Nú?) Ég vil að vísu nota tækifærið því að hér talaði hv. þm. Ögmundur Jónasson um lýðheilsu og ég fagna áhuga hans á henni. (Gripið fram í.) Það var þannig, virðulegur forseti, að þegar hann tók við sem heilbrigðisráðherra þá tók hann við stefnu í lýðheilsumálum sem var unnin af sérfræðingum, undir forustu doktors í slíkum fræðum. Hann kom henni vandlega fyrir þannig að hún hefur ekki sést síðan eða sást alla vega ekki í tíð þeirrar ríkisstjórnar. (ÖJ: Sykurskatturinn.) — Skatta kann hv. þingmaður á, en ekki annað. Það voru tugir tillagna, (Gripið fram í.) tímasettar með áætlunum og slíku — nei, nei, það eina sem kom til greina voru skattar. (ÖJ: … lækka …)

Það að forustumaður síðustu hæstv. ríkisstjórnar tali hér um lýðheilsumál, eftir framgöngu hennar, er gott dæmi um mikinn popúlisma. Fjármálaráðherra síðustu ríkisstjórnar talaði hins vegar af skynsemi um skattamál. Nú getur enginn haldið því fram að ekki hafi verið deilur í síðustu ríkisstjórn, en enginn mótmælti þeim góðu orðum sem hv. núverandi þingmaður, og fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, sagði þegar hann talaði um virðisaukaskattinn. Ég hvet hv. þingmenn Samfylkingarinnar og VG til að skoða þau ágætu orð, sem voru mælt af skynsemi. Þá gætum við kannski, ekki bara náð fram þessum góðu skattalækkunaráformum (Forseti hringir.) heldur hugsanlega breikkað virðisaukaskattinn enn frekar og fækkað (Forseti hringir.) undanþágunum; ef menn fara bara úr popúlismanum (Forseti hringir.) og vinna þetta faglega (Forseti hringir.) og skoða sín eigin orð. (ÖJ: Svolítið erfitt að …)