145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við frumvarp sem hæstv. utanríkisráðherra flytur í annað sinn, frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands o.fl. (skipulag). Þetta þingmál hefur fengið númerið 91 og er á þskj. 91. Til marks um flumbruganginn og ákafa hæstv. utanríkisráðherra að koma höggi á Þróunarsamvinnustofnun og leggja hana niður eins og hann boðar þá er þetta mál á dagskrá næst á eftir fjárlögum og bandormi sem eru venjulega fyrstu mál. Oft hafa nú ýmis mikilvægari stjórnarfrumvörp fengið fyrstu sætin á nýbyrjuðu þingi, annað en sá óskapnaður sem hér er.

Þegar ég hlustaði á hv. þm. Ögmund Jónasson áðan, fyrrverandi formann BSRB, sem hefur borið hag starfsmanna hjá stofnunum eða fyrirtækjum fyrir brjósti, þegar hann var að ræða um þá aðferð sem hér á beita, ef þetta frumvarp verður einhvern tíma að lögum sem ég vona ekki, að allir ættu að fá starf innan ráðuneytisins, kannski ekki sambærilegt en eitthvað breytt, en svo væri gert eitthvað allt annað við forstöðumanninn, þá vil ég segja þetta: Í tiltölulega nýlegri samþykkt ríkisstjórnar Íslands, þeirri sem nú situr, hvort það var í febrúar, mars eða apríl man ég ekki en það raunar skiptir ekki máli, þá barst okkur í atvinnuveganefnd til eyrna, þegar við vorum að ræða frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar, þ.e. það kom fram hjá einum embættismanni, að uppsagnir og sameiningin og allt það ætti ekki að eiga sér stað eins og venjulega hefur verið gert, sem við þekkjum báðir, fyrrverandi ráðherrar samgöngumála, heldur á allt annan hátt samkvæmt nýlegri samþykkt ríkisstjórnar Íslands. Ég hafði aldrei heyrt þetta og þetta var ekki í frumvarpinu svo að ég óskaði eftir því að þessi samþykkt og þetta gagn kæmi til okkar í nefndinni og yrði sett undir málið.

Nú verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér vannst ekki tími til að draga fram þetta plagg til að lesa upp úr því og setja það fram en vil ítreka að með þessari samþykkt er verið að fara nýjar leiðir til að segja upp fólki, starfsmönnum ríkisins. Það átti meðal annars, ef ég man rétt, að gera það auðveldara að leggja niður litlar stofnanir á vegum ríkisins.

Þess vegna spyr ég: Hafa menn heyrt um þetta? Hefur hæstv. utanríkisráðherra, sem var vonandi á þeim ríkisstjórnarfundi, kynnt sér það mál? Er það leiðin sem á að fara ef þetta óheillafrumvarp nær í gegn? Á þá að segja upp starfsmönnum, eins og þessi tiltölulega nýlega samþykkt ríkisstjórnarinnar var um, sem er allt önnur leið en farin hefur verið hingað til við sameiningu stofnana? Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra og vonandi svarar hann því þegar tími gefst við lok þessarar umræðu.

Virðulegi forseti. Þetta óheillamál er illu heilli komið aftur hingað inn. Ég hefði haldið að hæstv. utanríkisráðherra mundi geyma að leggja það fram og skoða það betur eftir þá sneypuför sem hann fór með þetta sama frumvarp á síðasta þingi. Þetta er vont mál og gerir ekkert annað en versna við frekari umræðu og vitna ég þar í og minni á það sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sagði í þingræðu í gær. Hann hlustaði á umræður, væntanlega líka í utanríkismálanefnd, og fékk ekki neina niðurstöðu úr því hvers vegna verið væri að gera þetta.

Hvernig varð Þróunarsamvinnustofnun Íslands til? Þá var nefnilega framsóknarmaður í sæti utanríkisráðherra eins og nú. Það var 7. apríl 1981 sem þáverandi utanríkisráðherra, Ólafur heitinn Jóhannesson, flutti lagafrumvarp um stofnun Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Í því frumvarpi var fjallað um ályktun sem samþykkt var á þingi Sameinuðu þjóðanna um að stefnt skyldi að því að iðnríki verðu a.m.k. 1% þjóðartekna til stuðnings þróunarríkjum. Ég vil lesa upp úr Alþingistíðindum það sem þáverandi utanríkisráðherra, Ólafur Jóhannesson, sagði, með leyfi forseta:

„Eitt þeirra viðfangsefna sem verða æ þýðingarmeiri með ári hverju á sviði alþjóðamála er sú umræða sem fram hefur farið, aðallega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, um samskipti ríkra þjóða og snauðra. Veigamikið atriði í því máli er sú krafa þróunarlanda að aukin verði aðstoð til þeirra frá iðnríkjunum sem geri þeim síðan kleift að standa á eigin fótum.“

Það er kannski ekkert óeðlilegt að utanríkisráðherra gangi úr salnum og vilji ekki hlusta á forsendurnar sem settar voru fram af framsóknarmanninum og þáverandi utanríkisráðherra, Ólafi heitnum Jóhannessyni, um tilurð Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram. Þetta var mikilvægt og gott markmið. Síðan fjallar fyrrverandi utanríkisráðherra, Ólafur Jóhannesson, um að skömmu áður en áðurnefnd ályktun var samþykkt á þingi Sameinuðu þjóðanna hafi verið samþykkt á Alþingi lög um nýja stofnun, Aðstoð Íslands við þróunarlöndin, nr. 20/1971. Þar var sem sagt fyrst fjallað um að veita 1% af þjóðartekjum í slíka aðstoð. Síðan bað stjórn Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin þáverandi ráðherra, þ.e. Ólaf heitinn Jóhannesson, tveimur árum áður en hann flutti frumvarpið, að hann hlutaðist til um endurskoðun á lögunum. Hann gerði það og fól stjórn stofnunarinnar að sjá um þá endurskoðun. Það má segja að frumvarpinu sem ráðherra flutti hafi verið ætlað að leysa lögin af hólmi. Hæstv. ráðherra sagði þá, með leyfi forseta:

„Það eru nokkur nýmæli í þessu frumvarpi. Nú er skipt um heiti á stofnuninni og hún kölluð Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Það er ekki heppilegt heiti og væri gott ef menn gætu fundið eitthvert betra heiti.“

Það fundu menn reyndar ekki, hvorki í efri deild né neðri deild. Síðan var þetta mál unnið í deildum og í báðum deildum voru fulltrúar allra flokka sammála um að mæla einróma með samþykkt frumvarpsins um Þróunarsamvinnustofnun Íslands eins og það lá fyrir á þskj. 603. Það var ekki gerð ein einasta breytingartillaga.

En nú kemur framsóknarmaðurinn, hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, í annað sinn með þetta óheillafrumvarp og ætlar að ráðast á þessa stofnun og það góða starf sem hún hefur innt af hendi, samkvæmt áliti margra, þar á meðal Ríkisendurskoðunar, og leggja stofnunina niður og færa inn í ráðuneyti sitt.

Virðulegi forseti. Það eru engin haldbær rök sett fram í frumvarpinu fyrir því hvers vegna þetta er gert. Ég ítreka aftur það sem ég sagði við umræðuna síðast um þetta mál að ég held að þetta sé meinbægni og allt að því hatur hæstv. ráðherra út í þessa stofnun og starfsmennina sem hafa kannski komið á fund utanríkismálanefndar og lýst skoðunum sínum og talað af hreinskilni. Það er það sem mér sýnist að hæstv. utanríkisráðherra þoli ekki og þess vegna ráðist hann á þessa stofnun og starfsemi hennar. Það er mjög líklegt að þarna liggi líka undir mikill niðurskurður á utanríkisráðuneytinu eftir að hv. þingmenn, varaformaður og formaður fjárlaganefndar, þ.e. Guðlaugur Þór Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir, réðust á fjárveitingar til utanríkisráðuneytisins. Ætli það hafi ekki verið fyrir fjárlög 2013 sem mikið var skorið niður hjá ráðuneytinu. Ráðherrann kveinkaði sér mikið undan því og fannst þau beita miklum órétti. Nú held ég að það eigi að ráðast að fjármagni sjálfstæðrar stofnunar, þ.e. Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, og færa hana með húð og hári inn í ráðuneytið með fögrum orðum um að starfsmenn verði endurráðnir og það allt. Ég held að menn ásælist peninga Þróunarsamvinnustofnunar og vilji setja þá í ráðuneytið sjálft og að þeir starfsmenn sem þar vinna muni ekki eingöngu sinna þróunarsamvinnu, eins og þeir eru að gera í dag, heldur verði þeir settir í ýmislegt annað.

Má ég í lokin kannski kasta fram einni spurningu til hæstv. utanríkisráðherra ef hann vill vera svo vænn að svara því í lok umræðu eða hvenær sem hann vill? Getur verið að ef hann nær sínu fram og tekur stofnunina inn í ráðuneytið þá verði skipaðir þrír eða fjórir á sendiherralaunum með sendiherratign til að sinna þessum málum? Ég spyr vegna þess að við lestur þessa frumvarps og við þá umræðu sem hefur farið fram hafa ekki komið fram nein almennileg rök sem styðja málflutning og ætlun ráðherrans nema það sé vegna þess sem ég fjallaði hérna um.

Hér ræddi hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, um málið í andsvari við hv. þm. Ögmund Jónasson og talaði um hvernig utanríkisráðherra umgengst þessa stofnun í dag og spurði hvort það nálgaðist ekki hreint einelti gagnvart starfsmönnum hennar. Ég held nefnilega að það sé hárrétt. Hvers vegna var forstjórinn ekki tekinn með þegar hæstv. utanríkisráðherra og vafalaust einhverjir fleiri fóru í heimsókn í sumar til ákveðins lands til að ræða þróunarsamvinnu? Hvernig stendur á því? Er það virkilega rétt sem hefur komið fram í þessari umræðu að hæstv. utanríkisráðherra sé búinn að skrifa forstjóranum bréf og tilkynna honum að hann verði ekki endurráðinn, einu eða einu og hálfu ári áður en ráðningartíma hans lýkur? Ég kemst ekki að neinni annarri niðurstöðu um þetta mál og um þann óskapnað sem verið er að gera, að færa stofnunina inn í ráðuneytið.

Nú er ágætt að taka undir spurningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem hann setti fram hérna áðan. Mundi mönnum einhvern tíma detta í hug, til dæmis innanríkisráðherra, að taka Vegagerðina og gera hana að einhverri deild í innanríkisráðuneytinu? Að sjálfsögðu ekki. Að sjálfsögðu mundum við þingmenn aldrei samþykkja það. Ég ætla að leyfa mér að efast um að nokkurn tíma verði svo vitlaus innanríkisráðherra að honum detti það í hug sem hér er verið að gera við Þróunarsamvinnustofnun.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef sagt þá sé ég ekkert skynsamlegt við þetta mál og spyr hvers vegna í ósköpunum hæstv. ráðherra flytur það aftur eftir þá miklu andstöðu sem var um það á síðasta þingi. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var mesta framlag til Þróunarsamvinnustofnunar sem nokkurn tíma hefur verið reitt af hendi Íslendinga. Það er eitt dæmi um hvað þáverandi ríkisstjórn gerði marga hluti allt öðruvísi en núverandi ríkisstjórn, þegar þáverandi hæstv. utanríkisráðherra beitti sér fyrir því og náði því í gegnum ríkisstjórn og stjórnarflokka. Var ekki upp undir 1 milljarði bætt við í Þróunarsamvinnustofnun og þróunarsamvinnu þá? Við erum það rík þjóð að við eigum að leggja löndum lið hvað þetta varðar. Það sem gert hefur verið í þróunarsamvinnu Íslands til að hjálpa löndum og þjóðum hefur verið til mikillar fyrirmyndar. Ég vil að það haldi áfram.

Ef ég hefði haft meiri tíma hefði ég verið alveg til í að snúa þessu frumvarp yfir í það að spyrja spurninga um ráðherranefnd (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar hvað varðar móttöku flóttamanna en ég get það ekki núna. Upp í hugann kemur ýmislegt.