145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:19]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég verð að koma hingað upp til að taka undir með þeim sem rætt hafa um fundarstjórn forseta. Ég er alveg steinhissa á því að svona nokkuð geti gerst í þinginu, en maður hefur nú svo sem séð ýmislegt gerast hér sem maður er hreinlega orðlaus yfir.

Að horfa hér á eftir utanríkisráðherra út áðan á harðahlaupum — hann hafði beðið um að umræðunni yrði frestað til að hann gæti verið viðstaddur einhvern viðburð — ég bara á ekki eitt einasta orð.

Þetta er forgangsmál utanríkisráðherra á nýju þingi, sem er frekar skrýtið því að miðað við umræðuna sem var um málið í vor gat hann alveg gert sér í hugarlund hvernig umræðan um það yrði nú. Að hann geti ekki setið undir henni sjálfur er alveg forkastanlegt, finnst mér. Þó að ég vilji ekkert slæmt um hæstv. utanríkisráðherra segja þá er alveg hreint með ólíkindum að fylgjast með þessu.

Ég legg til að umræðunni verði hreinlega frestað þangað til á morgun.