149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[17:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þá langar mig að fara inn á tvísköttunina. Nú veit ég hreinlega ekki hvort tvísköttun sé hugtak sem er formlega skilgreint af einhverjum fræðimönnum, en ég fór að velta þessu svolítið fyrir mér og ég get sjálfur ekki séð þetta sem tvísköttun nema tvísköttun sé normið, það sé í raun og veru meira og minna allt tvískattað, vegna þess að auðvitað koma peningar yfirleitt einhvers staðar annars staðar frá í keðjunni, þeir fara á milli stofnana og fólks og víða á leiðinni er tekinn virðisaukaskattur eða tekjuskattur eða einhvers konar skattur. Þótt einhver skattur hafi verið borgaður af upphæðinni fyrr get ég ekki séð það endilega sem tvísköttun, vegna þess að þá sé ég ekki betur en að peningar séu almennt tvískattaðir og margskattaðir reyndar. Þá finnst mér hugtakið frekar þýðingarlaust.

Ég get hins vegar séð tvísköttun í því að ef maður greiðir inn í lífeyrissjóð og af því er tekinn tekjuskattur og sömuleiðis þegar maður tekur út. Það skil ég sem tvísköttun. Ég myndi kannski kalla það tvísköttun með söluskattinn eins og var, þegar á hverju þrepi sölunnar (Forseti hringir.) væri tekinn aftur söluskattur, ólíkt virðisaukaskattskerfinu. En mér finnst seilst svolítið langt að kalla þetta tvísköttun. Ef það er til (Forseti hringir.) einhver formleg skilgreining á því er ég allur eitt eyra.