150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

einföldun regluverks.

5. mál
[17:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar sem var sköruglegt eins og hans er von og vísa. Ég er hins vegar á öndverðum meiði við hv. þingmann um þingmannamál, hafandi verið þingmaður líka í stjórnarliði. Oft og tíðum koma nauðsynleg mál ekki fram vegna þess að þau henta kannski ekki í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar á hverjum tíma. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að þingmenn komi fram með merk mál. Við sem höfum verið að flytja þingmannamál þekkjum það að þurfa að flytja þau þing eftir þing, merk og mjög góð mál. Ég gæti nefnt tugi af þeim. Ég held að engum sé skaði gerður með þeim. Mörg af þeim málum sem t.d. við Miðflokksmenn höfum kynnt undanfarin tvö þing hefðu örugglega orðið til bóta ef þau hefðu gengið í gegn og orðið að lögum. Það er alveg klárt. Þannig að ég er ósammála hv. þingmanninum um að það eigi að vera einhver bremsa á að þingmenn komi með mál. Það er ekki þar með sagt að þingið eigi að vera einhver krani. Það er það vissu leyti því að hérna renna EES-gerðir í gegn eins og enginn sé morgundagurinn og enginn horfir á, jafnt stórar og smáar. Þrátt fyrir að beitt sé hóflegu andófi til að koma í veg fyrir verstu mistökin henda þau samt, hv. þingmaður, þannig að ekki er um það að ræða að við séum endilega á því að hér eigi mál að renna í gegn umræðu- eða umfjöllunarlaust. Alls ekki.

Ég segi aftur: Ég held að mörg þau mál sem lögð eru fram af þingmönnum og jafnvel einstaka þingflokkum eigi sannarlega skilið að fara í gegn. Þetta mál er eitt af þeim og ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér í því.