150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:42]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við skulum hafa alveg á hreinu við setjum ekki heilu stofnanirnar á fót og stýrum löggjöf eftir sögusögnum. Ég vil líka benda fólki á að valdbeiting, sem er eitt af hlutverkum lögreglu, mun aldrei verða vinsæl. Það er bara þannig. Það er eðli starfsins. En að sjálfsögðu þarf lögreglan að gæta meðalhófs í valdbeitingunni og þess vegna höfum við margháttaða ferla. Við höfum fullt af dæmum um það, allt of mörg að mínu mati — og þar má líka ræða, eins og fram hefur komið áður, húsbóndaábyrgð og annað slíkt — að lögreglumenn fá á sig dóma af því að þeir beittu ekki meðalhófi. Mér finnst kerfið virka. Hv. þingmaður lýsti því líka hér að umboðsmaður hafi bent á brotalöm og það var brugðist við strax. Eftirlitsnefndin var sett á fót. Embætti héraðssaksóknara var stofnað eftir það. Við tókum á þessu þannig að ég held að við séum að bregðast við og ég held að við séum í góðum málum.