150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

grunnskólar.

16. mál
[18:34]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að hafa snert á þeim þáttum sem við þurfum vissulega að skoða betur. Ég hef verið sammála því, það var gerð ákveðin málamiðlun á sínum tíma því að fólki fannst skrefið stórt að tryggja stuðning við sjálfstætt starfandi skóla á sínum tíma. Ég held að það sé kominn tími til að við skoðum nákvæmlega þessar forsendur og ég fagna miklum vilja hennar til að það verði skoðað. Ég hvet allsherjar- og menntamálanefnd til að gera það.

Það skiptir máli að sjá hvernig sveitarfélögin hafa gert þetta og ég ítreka að ég held að það hafi verið gerð ákveðin bragarbót á þessu í Reykjavík. Meðal annars birti Pawel Bartoszek grein í dag þar sem hann undirstrikar að foreldrar eigi að hafa val og að sjálfstæðir skólar gegni mikilvægu hlutverki í menntakerfi höfuðborgarinnar og það verði að tryggja áfram að þeir geti unnið störf sín af metnaði og alúð. Það þýðir að þeir hafa m.a. aukið framlag til sjálfstætt starfandi skóla vegna frístundastarfs. Það skiptir sjálfstætt starfandi skóla gríðarlega miklu máli að á því sviðinu sé líka jafnræðis gætt fyrir utan að það er búið að gera mikinn skurk varðandi leikskólamálin.

Ég vona að þetta sé eitt af þessum málum sem kljúfi ekki flokkana. Ég vona að þetta sé eitt af þeim málum sem við getum sameinast um að vinna betur. Ég held að það sé hægt að vinna aðeins betur með tölur, nýta reynslu, bæði skólafólks innan þingsins sem utan sem og sveitarstjórnarfólks hér innan sem utan. Það er óþarfi að búa til einhverja togstreitu. Ég held að við getum sameinast um að við verðum fyrst og fremst að tryggja áfram valfrelsi í þágu barnanna okkar og þannig getum við gert allt samfélagið og skólakerfið betra. — Ég þakka góðar undirtektir.