152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

22. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Nefndir geta náttúrlega verið gagnlegar, en ég held að það sé alger óþarfi að setja á laggirnar enn eina nefndina um stóru myndina í sjávarútveginum. Tillögurnar sem verkefnastjórnin skilaði 2019 eru ekki bara um samþjöppun. Þær eru um vigtun á hafnarvog og endurvigtun og heimavigtun. Þær eru um brottkast og eftirlit á hafi úti. Þær eru um heimildir Fiskistofu til sekta o.s.frv. Þær eru um allt mögulegt sem ég held að við ættum að geta náð góðri sátt um í þessum sal ef við myndum einhenda okkur í það. Ég vona að slíkt frumvarp komi fram en auk þess þurfum við að huga að þeirri samþjöppun sem blasir við og þeirri staðreynd að við erum þarna með fyrirtæki sem ég leyfi mér að segja að fái auðlindina fyrir slikk og séu hreinlega orðin of stór fyrir okkar hagkerfi og teygja anga sína allt of víða. Ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég sá þetta um nefndina og sjávarútvegsmálin og hugsaði einmitt líkt og hv. þingmaður: Er þetta enn ein nefndin? Vitum við ekki nokkurn veginn hvernig landið liggur?

Þegar talað er um að ná þurfi sátt um auðlindir okkar leyfi ég mér að spyrja: Um hvað á að ná sátt og hver á að verða sáttur? Það er augljóst að þjóðin er ósátt, það sýna kannanir okkur. Þarf ekki að gera sáttmála við þjóðina en ekki endalaust að láta undan stórútgerðinni eins og gert hefur verið undanfarin ár?