152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

22. mál
[16:21]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal ekki segja hvort þetta hafi verið svo útspekúlerað út frá sjónarhóli útgerðarrisanna, en sannarlega hafa þeir átt sér talsmenn meðal stjórnarliða. Vonandi sjáum við breytingar með nýjum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem ræddi á árum áður öðruvísi um sjávarútvegs- og auðlindamál þjóðarinnar en ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. En Stundin, tölublaðið sem kom út í nóvember, sýndi þetta með svo skýrum hætti og ég hvet hv. þingmenn sem eru að velta þessum hlutum fyrir sér til að lesa Stundina þar sem blaðamaðurinn tekur saman og greinir þessa anga sem fara frá útgerðarrisunum út í aðrar atvinnugreinar í landinu. Það er auðvitað rétt að í gegnum þau fyrirtæki getur útgerðin beitt sér til þess að gæta enn betur að sínum hag. Þetta er kóngulóarvefur sem ýtir sannarlega undir að auðsöfnun verði meiri á fárra hendur. Þó að það sé ekki nema bara þess vegna ættum við að skoða vel lagaumhverfið. Við þurfum ekki aðra nefnd til þess. Við getum gert svo margar góðar breytingar sem eru nú þegar vel rökstuddar og útskýrðar í skýrslum sem nefndir hafa skrifað. Það væri kannski gott ráð til nýs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að lesa þær skýrslur og huga síðan að því hvað upp á vantar.