152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

22. mál
[16:46]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég nefndi bara Suðurkjördæmi vegna þess að við hv. þm. Ásmundur Friðriksson erum bæði þingmenn Suðurkjördæmis en auðvitað á þetta við úti um allt land. Hv. þingmaður talaði um í ræðu sinni að hann hefði nú ekki áhyggjur af spillingu og gæti einhvern veginn ekki séð það fyrir sér. Ég sagði heldur ekki að hún væri grasserandi hér. Ég benti hins vegar á að það eru dæmi um það út um allan heim að það vofir spillingarhætta yfir þjóðum sem eru ríkar af auðlindum og það eru mörg dæmi um það. Dæmi sem við flest þekkjum er Namibía og Samherji. Þar tengjumst við Íslendingar, því miður, inn í það leiðinlega mál. Við hér á Alþingi þurfum auðvitað að sjá til þess með lagaumhverfið að það sé engin hætta á spillingu vegna þess að við séum vel varin og almannahagur sé varinn í lögum.

Hv. þingmaður talaði um sátt, það væri svo mikilvægt að ná sátt. Hafandi horft á og fylgst með öllum þessum sáttanefndum og sáttartali í kringum sjávarútveginn þá segi ég það bara hér, og ég held að það blasi við, að útgerðin mun aldrei láta hagsmunina, sérhagsmunina, frá sér átakalaust. Þeir búa við ákveðin fríðindi, fá að fénýta auðlindina okkar og með ríkulegum arði og munu ekki láta það frá sér átakalaust. Og þegar þú ert kominn upp í 12% af úthlutuðum kvóta — þú þarft ekki nema rétt um átta útgerðir, (Forseti hringir.) þá er allur kvótinn farinn undir þessar stórútgerðir. Er þá ekki allt í lagi, (Forseti hringir.) ef einhver fer yfir markið, sama hvernig árar, að hann selji þá frá sér það árið? Ég hef ekki áhyggjur af því.