152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir ræðuna áðan. En ég verð bara að segja eins og er að ég er alveg 100% ósammála honum. Ég hef verið í sveit og það að tala um fæðingu dýra eða annað hefur hingað til ekki skelft einn eða neinn. Það hefur verið sýnt í mörgum dýralífsmyndum og annað og það hefur enginn hrokkið í kút yfir því. En hvers vegna í ósköpunum skyldi þetta dýraníð, þar sem við níðumst á einu dýri til þess að geta níðst á öðru, vera eitt best geymda leyndarmál Íslandssögunnar? Hvers vegna hefur þetta eiginlega aldrei komið til umræðu? Það er vegna þess að það er enginn þeirra sem eru að gera þetta stoltur af því. Ég hef aldrei nokkurn tíma orðið var við bónda sem kemur stoltur og segir: Komið og sjáið. Ég er að fara að taka blóð úr merinni minni. Hún er með folaldi og ég ætla að taka 25, 30, 40 lítra á mánuði eða tveimur mánuðum. Ég ætla svo að selja það og græða á því til þess að hægt sé að níðast á gyltu sem er ekki tilbúin til þess að eignast grísi. Hún er ekki tilbúin til þess af því að hún er nýbúin að eignast grísi og af því að hún er ekki tilbúin til að eignast fleiri grísi verður að dæla í hana þessu hormóni, svo hún verði tilbúin miklu fyrr. Þú verður að fyrirgefa, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, en þetta getur ekki verið rétt og það er ekki hægt að gera það fallega. Það er algjörlega útilokað.