Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[16:19]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Jú, ég hygg að það sé mikilvægt að sveitarstjórnarmenn eigi fulltrúa í þessari raflínunefnd ef af þessu verður. Það hlýtur að þurfa að ná saman á milli sveitarfélaga og það eru auðvitað fulltrúar í sveitarstjórn sem hafa pólitískt umboð til að gera það. Ég hins vegar velti upp svæðisskipulagsforminu af því að mér finnst það passa vel inn í þau skipulagslög og þá skipulagsumgjörð sem við höfum búið okkur. En ég ætla ekki heldur að gera lítið úr því að það er mjög mikilvægt, verði þetta að veruleika og við eigum eftir að skoða það og kryfja í nefndinni, eins og hv. þingmaður tók fram, þá verður auðvitað að sjá til þess að almenningur hafi tök á því eða eigi kost á því að koma sínum skoðunum á framfæri. En þá má heldur ekki loka ferlið inni. Þess vegna spurði ég hér í upphafi og velti fyrir mér hvort í rauninni þessi tiltekna aðferð við að leysa þetta mál eða höggva á hnútinn væri til þess fallin að flýta og einfalda. Það er eiginlega það sem við þurfum að svara í nefndinni.