Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[16:45]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Erum við ekki einmitt að gera það með þessu frumvarpi? Erum við ekki að fjalla um hvort það sé hægt að taka einhverjar ákveðnar framkvæmdir út fyrir sviga? Það vill svo til að í þessu erum við að tala um raflínur. Þegar ég er að horfa á kosti svæðisskipulaga og strandsvæðisskipulaga þá er t.d. verið að taka betur utan um vernd ákveðinna svæða og ég held að tilgangur einmitt með svæðisskipulagi sé að hafa sameiginlega sýn á ákveðna þætti. Auðvitað er það náttúrlega í annarri mynd heldur en fjallað er um í þessu frumvarpi. En er þetta ekki byrjun á þessu samtali? Síðan get ég alveg tekið undir með hv. þingmanni að ef þetta mál næst fram til samþykktar þá verði það ekki fordæmisgefandi og við getum alveg gengið þannig frá því að við séum ekki að færa þetta yfir á aðrar framkvæmdir eða opna á aðrar framkvæmdir. Þá er ég að tala um vegi eða brýr eða eitthvað annað. En við þekkjum alveg þessa umræðu og þetta er mjög erfitt. Hv. þingmaður talaði um það í ræðu sinni að við gætum tekið út fyrir sviga raforku til almennings. Ég get t.d. bara fjallað um raforkuóöryggi heils landsvæðis eins og Vestfjarða sem á eftir að hringtengja. Ég held að það geti orðið mjög erfitt sveitarfélögum þar að fjalla um það hvert fyrir sig ef við ætlum að hringtengja vegna þess að það er yfir 100 km löng raflína sem þarf að leggja í gegnum nokkur sveitarfélög og getur orðið mjög erfitt fyrir þau og þau væru kannski bara svolítið fegin að fá aðkomu að þeirri ákvörðun með öðrum hætti.