154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

Störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Það sem af er ári hafa fimm einstaklingar látið lífið í umferðarslysum — fimm einstaklingar. Það hefur oft verið þannig hér á Íslandi að fleiri hafa látist úr umferðarslysum á hverju ári en engu að síður, þetta er fimm einstaklingum of mikið. Þetta erum við sammála um og við erum alltaf að reyna að leita leiða til þess að bæta umferðaröryggi. Við gerum það með því að endurhanna gatnamót, grafa göng, breikka vegi, fækka einbreiðum brúm og þar fram eftir götunum. Hvað ætlum við þá að segja sem samfélag við þeirri staðreynd að ef fram heldur sem horfir munu 80 einstaklingar deyja úr fíknisjúkdómi á þessu ári? Þetta eru tölur úr gagnagrunni SÁÁ. Það stefnir í það, ef við miðum við hvernig þetta er búið að vera það sem af er ári, að 80 einstaklingar deyi úr fíknisjúkdómi á þessu ári. Það jafngildir því á tíu árum eins og ef allir íbúar Grundarfjarðarbæjar myndu látast. Þetta eru þannig tölur á tíu árum. Við erum hins vegar ekki að gera sáttmála, samninga eða að blása í herlúðra til þess að bjarga þessu fólki, síður en svo, við rétt svo höldum í horfinu. Það er þannig núna að ein stærsta meðferðarstöð landsins, sem er rekin af SÁÁ, Vík, eftirmeðferðarstöð, þurfti að vera lokuð í margar vikur í sumar út af fjárskorti. Það gerði það að verkum að samfellan á milli Vogs og Víkur er rofin. Það gerir það að verkum að batalíkur fólks eru miklu minni og það gerir það mögulega að verkum að fólk deyr.

Ég heyrði hæstv. heilbrigðisráðherra tala hér með þeim hætti sem ég átti ekki von á núna fyrr í vikunni. Hann sagði: Við getum svo auðveldlega haldið því opnu ef það er vilji til þess. Það hefur ítrekað verið kallað eftir meira fjármagni til að hafa það þannig að það þurfi ekki að loka meðferðarstöðvum á sumrin. Þá fer hins vegar svo mikill peningur af sjálfsaflafé SÁÁ í ópíóíðafaraldurinn og viðbragð við honum að það vantar pening í hitt. Það er búið að lofa meira fjármagni. Það virðist hins vegar vera eitthvað djúpt á því því að það hefur ekki skilað sér til SÁÁ. Við hljótum rétt, eins og í umferðinni, að geta komið í veg fyrir það að fólk deyi að óþörfu.