154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

Störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Dánaraðstoð var til umfjöllunar á Fundi fólksins í Norræna húsinu um liðna helgi að frumkvæði félags sem ber nafnið Lífsvirðing og var stofnað fyrir nokkrum árum. Þar áttu þátttakendur bæði upplýsandi og yfirvegaða umræðu um dánaraðstoð og ber að þakka félaginu fyrir að setja svo viðkvæmt og vandmeðfarið mál á dagskrá.

Það hafa margir einlægan áhuga á því að ræða af fullri alvöru um að lögleiða dánaraðstoð hér á landi eins og gert hefur verið í nokkrum Evrópuríkjum. Ég ætla þó að taka fram að flokkurinn minn, Samfylkingin, hefur ekki mótað sér stefnu á flokksgrunni í þessu máli, en það þarf auðvitað að ræða þar eins og annars staðar, bæði á vettvangi stjórnmálanna og ekki síður meðal almennings í landinu. Dánaraðstoð er sá verknaður að binda enda á líf sjúklings af ásetningi og að ósk sjúklingsins. Mjög mikilvægt er að hafa í huga að það er aldrei gert nema sjúklingur óski þess og aðeins til þess að binda enda á þjáningu, óbærilegar þjáningar. Um dánaraðstoð þurfa að gilda mjög skýrar lagareglur og það þarf að vera algjörlega á hreinu gagnvart heilbrigðisstéttunum, aðallega læknum, hvernig hún er veitt og hvers vegna og það þarf að sjálfsögðu að vera refsilaust með öllu.

Ég vil hvetja til þess að við öll íhugum þetta mikilvæga málefni. Ég hef verið með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur á tillögum um þetta mál og ég hygg að hún sé að undirbúa nýja tillögu um málið sem verður vonandi lögð fram í haust. Það er tímabært að ræða þetta af fullri alvöru og við verðum að geta tekið það samtal hér í þinginu og ekki síður þarf að taka þetta samtal innan heilbrigðisstéttanna.