131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[14:10]

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég harma auðvitað að ekki var hægt að verða við erindi Samfylkingarinnar um að túlka umræðuna sem hér fór fram. Hún var ákveðin í gær, var tímasett í gær og við sendum í gær bréf í tölvupósti þar sem við fórum fram á að hér yrði túlkur. Þar ætluðum við að sjálfsögðu að sjá til að allir flokkar nytu jafnræðis og allar ræður yrðu túlkaðar. Okkur var það mikið í mun að koma þessari umræðu til skila, til þeirra sem hlut eiga að máli, horfa á sjónvarp en geta ekki skynjað það sem fram fer.

Niðurstaðan á fundi forseta þingsins var að hafna þessari beiðni en ég fagna því að bréfið verður þó til þess að gerð verður athugun, eins og hæstv. forseti boðaði, á að veita þessa þjónustu. Bréf okkar hefur þó orðið til að málið verði tekið upp. Ég fagna því og mun að sjálfsögðu ræða það í hópi þingflokksformanna og á fundum með forseta.

Ég vil, virðulegi forseti, nota tækifærið til að óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með daginn og ákvörðunina.