132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Húsnæðismál geðfatlaðra.

145. mál
[13:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar sem hann hér setur fram. Ég tel afar mikilvægt að við alla framkvæmd sem fram undan er til úrlausna í málefnum geðfatlaða verði fylgt því þjónustumati sem gert hefur verið varðandi alla uppbyggingu sem er mikilvæg forsenda til þess að vel til takist.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að mér fannst það ekki koma nægilega skýrt fram hjá honum, um skipan þessarar verkefnisstjórnar. Ráðherrann talaði um að hafa samvinnu við aðila. En ég vil spyrja af því að ég tel mikilvægt upp á alla framkvæmd að þekking og reynsla sem til staðar er nýtist við alla framkvæmd og úrlausn þessara mála: Mun t.d. fulltrúi Geðhjálpar vera í þessari verkefnisstjórn eða fulltrúar geðsviðs Landspítalans? Ég tel mikilvægt að þetta verkefni sé unnið í nánu samráði við þessa aðila og svæðisstjórnir.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær munu geðfatlaðir og aðstandendur þeirra finna að þetta verkefni komi til framkvæmda? Hvenær verður þessari þjónustu hrundið af stað? Er þetta eitthvað sem þarf að bíða eftir í tvö, þrjú ár eins og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir nefndi þegar hún sagði frá einum aðila sem hefur þurft að líða fyrir skort á þjónustu við geðfatlaða.

Síðan vil ég segja við hæstv. ráðherra að hann hefur væntanlega ekki skilið fyrirspurn mína vegna þess að það er skörun milli ráðuneyta varðandi kostnaðarskiptingu sem hefur bitnað með fullum þunga á geðfötluðum og aðstandendum þeirra og það hefur ekki verið leyst með þessum peningum sem hér er verið að tala um. Hæstv. ráðherra má ekki blanda þessu saman enda hafa t.d. hv. 10. þm. Reykv. n. Ásta Möller og hv. 4. þm. Reykv. s. Ásta R. Jóhannesdóttir sem vel þekkja til þessara mála staðfest það sem ég sagði í framsögu minni um þennan þáttinn. Það verður bara að leysa úr þessu máli til þess að það bitni ekki á geðfötluðum eins og það hefur gert í allt of langan tíma.