132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Húsnæðismál geðfatlaðra.

145. mál
[14:02]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég bið hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur afsökunar á því ef ég hef misskilið hana. Það var þá ekki með vilja gert. Það er vissulega rétt sem hefur komið fram í umræðum að dæmi þekkjast þess að skörun verður milli þessara tveggja ráðuneyta, félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Þetta verkefni sem ég hef hér lýst, hæstv. forseti, tekur m.a. á því. Eins og fram kom í máli mínu áðan mun búseta þessa fólks að stórum hluta til færast undan ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins yfir til félagsmálaráðuneytisins (JóhS: Að hluta til.) að stærstum hluta og með því mun þessum atvikum sem hér hefur verið vitnað til fækka til muna.

Hins vegar get ég alveg tekið undir það sem fram hefur komið í máli m.a. hv. þm. Ástu Möller að ein leiðin til þess að útiloka slíka hluti væri sú að sameina velferðarsvið þessara tveggja ráðuneyta. Ég get vel tekið undir hugmyndir um það.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir sagði að það væri dýrt að vista á sjúkrahúsi geðfatlaða einstaklinga sem gætu nýtt sér önnur úrræði svo sem sjálfstæða búsetu, ýmiss konar endurhæfingu o.fl. Það er alveg hárrétt og það er einmitt það sem þetta verkefni gengur út á, hæstv. forseti. Við erum því eins og stundum áður sammála um það að hér sé vel að verki staðið, ríkisstjórnin sé á réttri leið og það er ánægjulegt að finna stuðning í þingsalnum við þetta verkefni. Enda er það svo að ekki hafa áður verið teknir til hliðar jafnmiklir fjármunir til verkefnis sem þessa og það er vel. Við erum væntanlega sammála um það líka að rík þörf er á því.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr: Hvenær kemur þetta verkefni til framkvæmda? Gert er ráð fyrir að því ljúki á fimm árum. Það þýðir að við hefjumst handa nú þegar. Við erum að ganga frá skipun verkefnisstjórnar. Við munum eiga nána samvinnu og samráð við Geðhjálp, aðstandendur geðfatlaðra og þá fagaðila sem á þessu sviði starfa. Það er fullur vilji til þess hæstv. forseti. Um það þurfa menn ekki að velkjast í neinum vafa.