133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:34]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þótt hv. þingmaður, talsmaður Framsóknarflokksins sýni mikinn ákafa í stóriðjumálum þá má hann samt ekki fara offari og gera mönnum rangt til. Vinstri grænir hafa lagt til, lögðu til í sumar, að fyllingu Hálslóns yrði frestað meðan gert yrði nýtt áhættumat, menn æddu ekki svona áfram. (Gripið fram í.) Það er það sem rétt er. (Gripið fram í.)

(Forseti (RG): Gefið ræðumanni hljóð.)

Já, þetta kemur hálfilla við þingmennina. Ég held að það væri vit að hafa varann á. Hvað sagði virtur prófessor við Háskóla Íslands nú nýverið? Hann líkti vinnubrögðunum, undirbúningnum og framkvæmdinni við Kárahnjúkavirkjun við ofsaakstur þar sem menn vonuðust jú til að sleppa vel en viðurkenndu hins vegar að ef það yrði slys þá yrði alvarlegt slys.

Ég held að það sé brýnt að hafa (Forseti hringir.) það sem rétt er. Þetta þarf að endurskoða og við lögðum til og leggjum enn til að endurskoða áhættumat Kárahnjúkavirkjunar.

En stóriðjuáhugi Framsóknarflokksins er með endemum, frú forseti.