133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:35]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Vinstri grænna, Jón Bjarnason, er á harðahlaupum frá yfirlýsingum hv. þingmanns og formanns flokksins, Steingríms J. Sigfússonar, í frægri fjallræðu sem hann hélt uppi á Kárahnjúkum í sumar. Hann talaði um að þessi stífla ætti að standa sem minnismerki um heimsku manna. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hleypur ekki (Forseti hringir.) frá þessum orðum sínum.

Hv. þm. Jón Bjarnason hefur í engu svarað hvað Vinstri grænir ætla sér í framtíðinni með málefni Kárahnjúkavirkjunar. Það er spurningin sem stendur eftir í þessari umræðu, spurningin um hvort við ætlum að sólunda 200–300 milljörðum kr. til þess að fara eftir hugmyndum Vinstri grænna eða hvort við ætlum að standa vörð um þessa framkvæmd sem mun standa undir öflugu mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi framtíðarinnar. Þessari spurningu eiga Vinstri grænir eftir að svara við þessa umræðu.