133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:24]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2007. Það er eins og gengur að þessari umræðu hættir til að fara út um víðan völl alltaf svona í upphafi. Það er ekkert við því að segja að menn taki svolitlar rispur um fjármál, skattamál og almenn efnahagsmál í leiðinni. En fyrst, virðulegi forseti, nokkur orð um fjárlagafrumvarpið.

Með fjárlagafrumvarpinu, sem er sérstakt frumvarp og öðruvísi en öll önnur frumvörp, komum við inn á eina meginskyldu og meginréttindi þingsins, þ.e. að ráða sköttum og ráðstöfun þeirra. Það er grundvallaratriði að löggjafinn hafi það vald, að ráðstafa sköttum og leggja á skatta. Þetta er hlutur sem löggjafinn hér á Íslandi og annars staðar í Evrópu mundi aldrei gefa eftir. Það er mjög nauðsynlegt að menn átti sig á því að þessu er ekki til að dreifa. Þetta hefur Alþingi haft alveg frá því að stjórnarskráin var sett 1874, kom mestmegnis frá dönsku grunnlögunum eða grundvallarlögunum frá 1866 og þaðan frá frönsku stjórnarbyltingunni eins og allir vita.

Það er athyglisvert að fara yfir það hvað okkar mestu stjórnspekingar í gegnum árin hafa rætt í þessu sambandi. Það er rétt að rifja það aðeins upp. Miklir forustumenn í stjórnmálum, eins og t.d. Bjarni heitinn Benediktsson og Ólafur heitinn Jóhannesson, voru ekki eingöngu forustumenn í stjórnmálum heldur líka fræðimenn. Eftir þá er kannski til eitthvað það gleggsta sem um stjórnsýsluna hefur verið skrifað. Þessir menn voru miklir stjórnarsinnar að því leyti að þeir voru foringjar stjórnmálaflokka, þeir voru forsætisráðherrar og höfðu þess vegna reynslu. Þeir störfuðu sem slíkir, stjórnuðu hópnum, stjórnuðu liðinu sem var við völd hverju sinni. Eigi að síður kemur það mjög glöggt og mjög skýrt fram í ritum þeirra beggja að það sé eitt sem Alþingi megi ekki gleyma þrátt fyrir að menn sem styðja ríkisstjórnina séu í sama liði og ráðherrarnir — þeir megi ekki gleyma þeirri grundvallarskyldu sinni sem er eftirlitsskylda þingsins gagnvart því hvernig farið er með fjármuni og skatta borgaranna. Það er nauðsynlegt að taka þetta fram vegna þess að hér áðan var hrópað til mín af hv. þm. Einari Má að stjórnarsinnar mættu ekki alla tíð vera einhverjir stimplar fyrir ríkisstjórnina. Stjórnarmenn eru ekki að stimpla fyrir ríkisstjórnina. Stjórnarmenn hafa á hverjum tíma burt séð frá því hver er við völd skyldur, miklar skyldur við Alþingi.

En stjórnarandstaðan hefur líka skyldur, mjög miklar skyldur. Henni leyfist ekki eins og hún gerir oft með fjárlagafrumvarpið að tala um það út og suður. Henni leyfist það ekki, stjórnarandstaðan hefur hér miklar skyldur. Henni ber að ræða þetta hlutlægt og taka ábyrga afstöðu sem oft skortir á. Ég segi þetta vegna þess að það er nauðsynlegt að stjórn og stjórnarandstaða séu samhent ef menn sjá að framkvæmdarvaldið er að fara fram hjá lögum, réttum lögum sem eru náttúrlega þá fyrst og fremst fjárreiðulögin um meðferð peninga. Þetta vildi ég sagt hafa í upphafi þannig að þetta sé skýrt, virðulegi forseti.

Það er hins vegar athyglisvert með það frumvarp sem hér liggur fyrir að það er fyrst og fremst að tvennu leyti sem það sker sig úr. Það sker sig úr langtímaáætluninni sem við höfum gert og reynt að fylgja af mikilli kostgæfni og talið grundvallaratriði.

Í fyrsta lagi höfum við ætlað okkur í langtímaáætluninni að halda tilfærslufjárlögunum innan við 2,5% raungildi milli ára. Við höfum gert það um þó nokkurt skeið. Þetta frumvarp fyrir árið 2007 sker sig úr. Hér er gert ráð fyrir að tilfærslufjárlögin séu miklu hærri, allt að 10%. Vegna hvers er það? Vegna þess að ríkisstjórnin hefur samið um það og gert um það samkomulag að við ættum að hækka umtalsvert fyrst og fremst greiðslur til almannatrygginga, greiðslu sem nemur í fjárlagafrumvarpinu 5.700 millj. Við höfum líka samið um það að við ætlum að auka verulega barnabætur og nokkrar aðrar greiðslur sem þar eru. Þetta er sem sagt árið 2007 sem mun þá skera sig úr að því leyti, það er árið þegar framlög til almannatrygginga sem hækkuðu að raungildi meira en við höfum gert áður á Íslandi.

Ég á ekki von á því að þetta valdi neinni gagnrýni frá stjórnarandstöðunni. Ég held að hún hljóti að standa með ríkisstjórninni og fagna því sem gert hefur verið miðað við það sem hún hefur sagt áður um vilja sinn í þeim efnum.

Hitt frávikið í þessu frumvarpi er frávikið gagnvart tekjum. Í langtímaáætlun höfum við gert ráð fyrir því að árið 2007 yrði halli á ríkissjóði, það væri eðlilegt að halli væri á ríkissjóði eftir svo mikið þensluskeið. Í þessu frumvarpi er þetta framreiknað í þjóðhagsmódelinu gamla og við gerum ráð fyrir að ekki verði halli heldur verulegur afgangur. Um þetta má deila. Við sjáum að stóru bankarnir þrír sem eru með sínar greiningardeildir hafa líka komið með þjóðhagsspár og eins fjármálaráðuneytið. Það eru töluverð frávik sums staðar þó það sé mikill samhljómur í þeim spám.

Ég ætla að segja það hér að ég tel þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins mjög svartsýna. Ég tel það svartsýni að ganga út frá því að viðskiptahallinn muni halda áfram í svo miklum mæli á næsta ári eins og þar er gert ráð fyrir. Þeir eru að gera ráð fyrir viðskiptahalla upp á 10,7% miðað við verga landsframleiðslu.

Ég hef sagt það áður og sagði það við afgreiðslu fjárlaga hér í fyrra að sannarlega gerði ég mér vonir til þess að þetta þjóðfélag næði fyrr jafnvægi og yrði fyrr heilbrigt þannig að viðskiptahallinn mundi fljótlega hverfa, það væri mjög nauðsynlegt því þessi mikli viðskiptahalli er jú okkar stóri efnahagsvandi, þ.e. að fólk og fyrirtæki skuli skuldsetja sig í þeim mæli sem hefur verið á undanförnum missirum og árum. Okkur er mikil nauðsyn á að komast út úr því ferli. Því fyrr því betra.

Að sjálfsögðu er það rétt að það gæti haft einhver áhrif á tekjur ríkisins. Kannski mundu þær minnka ef þetta gengi hraðar fyrir sig. En ég tel það ekki vandann. Ég tel það alls ekki vandamál. Íslenska ríkið stendur betur en flest ef ekki öll ríki í Vestur-Evrópu. Það hefur gengið ákaflega vel að koma okkur út úr þeim stanslausu vandræðum sem íslenska ríkið var í hér áður fyrr fyrir um 15–20 árum. Þar sem allt var undir brot og slit og við vorum skuldugir upp fyrir haus. Ef við miðum við árin 1990, 1991, 1992, 1993 og miðum við þau, ef við værum í sömu klípunni nú og þá væru sjálfsagt skuldir ríkisins eitthvað í kringum 250 til 270 milljarðar. En núna eru þær nánast orðnar engar. Þetta er sá árangur sem við höfum náð.

Ég hef engar áhyggjur af því þótt tekjur ríkisins undir þessum kringumstæðum minnki. Ég tel það bara gott, mjög gott. Aðalatriðið er að efnahagslífið sjálft nái jafnvægi. Það er hið stóra atriði sem við þurfum svo mjög á að halda.

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að fara yfir hvað raunverulega hefur verið að gerast á Íslandi að undanförnu. Það er eins og hv. þingmenn, talsmenn stjórnarandstöðunnar, hafi bara alls ekki tekið eftir því eða áttað sig á því að á rúmlega tíu árum hefur landsframleiðslan íslenska vaxið um 60%, þ.e. svo menn skilji það nú betur: Kakan er 60% stærri en hún var. Það er miklu meira til skiptanna. Það er þetta sem hefur gerst. Það er þetta sem gerir okkur kleift að vera hér með mikla velferðarstjórn, mjög mikla velferðarstjórn, einhverja þá mestu sem til er í heiminum og vera samt með hallalaus fjárlög, vera samt búin að borga niður þær skuldir sem við vorum með. Ríki sem stendur að því að taka að láni peninga til að halda uppi rekstrinum frá ári til árs eins og hér var landlægt, það ríki var að stela lífskjörum af komandi kynslóðum og hinum óbornu. Það var að stela lífskjörum.

Á síðustu 15 árum hefur þetta verið leiðrétt. Þessar skuldir hafa verið borgaðar, borgaðar upp í topp. Við höfum notið ákveðinnar skattastefnu sem menn eru hér alltaf að mótmæla. Fyrir liggur að það var vitandi vits og með fullu samþykki og fullri samstöðu að við keyrðum hér skattastefnu sem var þannig og er þannig að við ætluðum að nota uppsveifluna í þjóðfélaginu til þess að bæta kjör ríkisins. Við höfum gert það. Ég tel það vera rétt að nota uppsveifluna til að bæta stöðu ríkisins.

Ætlar nokkur að mótmæla þessu? Hvað ef við hefðum ekki gert þetta? Hvernig væri ríkið þá í stakk búið til að mæta því ef einhvern tímann, sem sannarlega verður hér eins og annars staðar, verða erfiðari tímar? Við erum einmitt tilbúnir til að mæta erfiðari tímum vegna þess að ríkið er svo gott sem skuldlaust Þetta er það sem gerst hefur. Hvaða aðferðir höfum við notað til að ná þessum árangri? Á tíunda áratug síðustu aldar stóð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokksins, fyrst í fjögur ár, og síðan ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í önnur fjögur ár, að því að umbreyta allri viðskiptalöggjöf Íslands frá a til ö, um 80 meginlöggjöfum. Það hefur borið árangur. Þetta hefur nefnilega borið þann glæsilegan árangur að hér er frjálst efnahagslíf. Hér er frjáls verðmyndun. Hér er frjáls innflutningur. Hér er frjálst að fjárfesta og árangurinn hefur ekki staðið á sér. Hann er glæsilegur. Hann er betri og meiri en í nokkru öðru Evrópuríki. Eitt ríki er kannski fast á hælunum á okkur, Írland. Þeim hefur tekist að standa ákaflega vel og farsællega að sínum málum. Þetta er það sem hefur gerst og við skulum þakka fyrir það. Við skulum vera ánægð yfir að svo vel hafi tekist til.

Það er kannski erfitt undir þessum kringumstæðum að vera í stjórnarandstöðu. Það er kannski erfitt að sitja hér árum og áratugum saman með sama gamla krata/kommakjaftæðið um að hér sé allt að fara úr böndunum, að hér sé hið mesta óréttlæti og níðingsverk unnin næstum daglega. (Gripið fram í.) Hvergi nokkurs staðar hefur tekist að bæta kjör fólks meira.

Í áætlunum fyrir þetta ár er gert ráð fyrir því — og ég geng út frá því að það gangi eftir því það er mjög í takt við það sem hefur verið að gerast á undanförnum árum — ráðstöfunartekjur einstaklinganna eru að vaxa um 5,7%. Ég bið menn að muna þessa tölu. Hún er bara mjög merkileg þessi tala, 5,7%. Það er það sem ráðstöfunartekjur einstaklinganna eru að vaxa á þessu eina ári. Því bið ég ykkur um það vegna þess að menn hafa á undanförnum dögum, vikum og mánuðum rætt mikið um matarverð á Íslandi, að það sé hin herfilegasta staða sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir, þ.e. matarverð á Íslandi. (Gripið fram í: Það er dýrt.)

Hvað skyldu nú íslensk matvæli vera í vísitölunni, í neysluvísitölu Íslands eins og hún er í dag? Hvað skyldi það vera? Jú, virðulegi forseti. Það er nefnilega akkúrat 5,7%. Það þýðir, virðulegi forseti, að ef Íslendingum væru gefin öll innlend matvæli og þyrftu ekki að borga fyrir þau þá mundu kjör þeirra batna um 5,7%. Það er mjög nauðsynlegt að menn átti sig á því hvaða herjans vitleysu og hvers konar blekkingar menn hafa uppi þegar þeir halda því fram að íslenskir bændur og íslenskur landbúnaður sé sá myllusteinn sem er að draga niður kjör Íslendinga. Þetta er herfileg meðferð á staðreyndum. (Gripið fram í.) Íslenskur landbúnaður hefur á undanförnum árum ekki síður en aðrir íslenskir atvinnuvegir sýnt gríðarlega framleiðni, (Gripið fram í: Góður.) gríðarlega framleiðni. Hann hefur fullkomlega staðið sig á við allar aðrar atvinnugreinar. (Gripið fram í: Hvað er þá að?)

Við erum að verja hins vegar heilmiklum peningum til að verja þennan atvinnuveg. Við erum að verja í beinar greiðslur til hans í þessu fjárlagafrumvarpi — og rétt að taka það fram — 8 þúsund og 500 milljónum, 8,5 milljörðum. Því gerir frumvarpið ráð fyrir. 8,5 milljarðar. Sú er talan. Það er að vísu heilmikil tala. Það er alveg rétt. En ef við miðum við hvernig þetta var fyrir 20 árum þá hefur þetta minnkað gríðarlega mikið. Þetta er ekki helmingurinn af því, hvorki að raungildi né sem hlutfall af landsframleiðslu eða útgjöldum ríkisins. Við höfum minnkað stuðninginn við landbúnaðinn verulega. Það er alveg rétt og það er alveg sjálfsagt að gera þær kröfur til landbúnaðarins að hann sýni hagræðingu og að hann nái árangri. Auðvitað er í þessum samningum sem við erum með við landbúnaðinn gert ráð fyrir að hann fari minnkandi að raungildi. Það er bara rétt krafa og landbúnaðurinn hefur orðið við því og orðið sammála um það. En að íslenskur landbúnaður sé það sem haldi niðri kjörum Íslendinga og þess vegna eigi að hætta þeirri landbúnaðarstefnu sem við höfum svo farsællega rekið hér og henda þessu öllu út um gluggann … (RG: Hver vill það?) Það hefur komið fram í ræðum m.a., virðulegi forseti, hjá konu sem er formaður flokks sem heitir Samfylkingin þar sem hún hefur lagt til að í stað þess að vera með þessa peninga bundna við framleiðsluna og framleiðslubinda styrki við landbúnaðinn þá væri rétt að taka þá og dreifa þeim milli bænda og hafa þá ekki bundna við framleiðsluna heldur ætti að borga mönnum í sveitum, ég held kannski, helst fyrir að horfa á naflann á sér eða góna upp í tunglið. Það er rangt. Þannig yrði íslenskur landbúnaður rústaður. Þess vegna hafa nokkrir hagfræðingar gert að gamni sínu að reikna það út að það borgaði sig ef Íslendingar stunduðu ekki landbúnað. Það er alveg réttur reikningur hjá þeim. Þeir kunna alveg að leggja saman og draga frá og þeir kunna líka litlu margföldunartöfluna og þeir sem helst hafa haft sig frammi í þessu eru mjög greindir menn og þekking þeirra er mikil.

En það sem þeir nota ekki og setja ekki í sína reikninga er að það hefur óendanlega þýðingu fyrir hvert land að það sé byggt, að þar sé byggð. Ef við byggjum ekki Ísland þá eigum við ekki hér heima lengur. Þá erum við ekki Íslendingar. Sérhvert einasta iðnríki í vesturálfu ver sinn landbúnað eins og það frekast getur. Það gerum við líka og við erum í hópi þeirra sem styðja landbúnað hvað mest. Hvaða ríki skyldu það nú vera? Það er Japan, það er Sviss, það er Noregur og það er Ísland. Þetta er toppurinn. Og hvað eiga þessi ríki sameiginlegt? Jú, þetta eru hinar ríku þjóðir sem hefur tekist mjög vel til í sínum efnahagsmálum. Þeir eru að verja landbúnaðinn sinn vegna þess að ef við tökum þetta út úr og segjum engin verðmæti felist í að byggja eitt land, engin, þá erum við að deyða okkur sjálf. Það er fórnarkostnaður við íslenskan landbúnað sem við eigum að þora að verja og standa vörð um. (Gripið fram í.) Það er grundvallaratriði. Þetta er ekki stór upphæð. Hún á kannski að fara minnkandi á komandi árum. Það er sjálfsagt að breyta tollum og vörugjöldum á komandi árum. (Gripið fram í.) Það er sjálfsagt að gera það. En við verðum að gera það þannig að við séum ekki að brjóta niður atvinnuvegina á landsbyggðinni eins og tillögurnar hafa verið um (Gripið fram í.) því úrvinnsla landbúnaðarafurða er ekkert síður hluti af byggð landsins heldur en sjálfur landbúnaðurinn.

Ég vildi sagt hafa þetta, virðulegi forseti, vegna þess að þessi umræða hér á undanförnum vikum (Gripið fram í.) og missirum hefur algjörlega gengið fram af mér vegna þess þekkingarleysis og heimsku sem hefur fylgt henni. (Gripið fram í: ... bara ekki beint inn úr fjöllunum.) Það er þannig, virðulegi forseti, varðandi þau verðmæti, menningarlegu verðmæti, félagslegu verðmæti sem í því eru fólgin að byggja þetta land, að það tap sem við yrðum fyrir ef við hættum þessu væri margfalt fyrir ríkissjóð Íslands miðað við þá 8,7 milljarða sem við eyðum til að borga í beinar greiðslur til bænda, margfalt. Hélt ég þó, virðulegi forseti, að flestir væru sammála um að félagsleg vandræði á Íslandi væru næg fyrir og að við ættum nóg með það sem við þurfum að glíma við, öll þau vandræði, þó við færum ekki að margfalda þau með slíkum heimskupörum.