133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson verð ég nú að segja að sé með þeim vaskari sem koma í ræðustól og er hann um margt glöggur þó við séum ekki sammála í öllu.

Það er eitt sem ég vil fyrst segja. Í andsvari við hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson heyrði ég hv. þingmann segja að frestunin á vegaframkvæmdum á Vestfjörðum hefði verið nauðsynleg til að slá á væntingar. Hann var að vísa til fjármálamarkaðarins og annars sem hefur áhrif á hann vegna þenslunnar. En var þetta rétt leið? Þarna var líka verið að slá á væntingar fólks á Vestfjörðum og Norðausturlandi sem hefur þurft að búa við það að meintar eða fyrirhugaðar vegaframkvæmdir sem þeim hefur oft verið lofað hafa verið skornar niður aftur og aftur. Svo þegar von er um að hægt sé að standa í ístaðinu og fylgja því eftir þá er þeim frestað þrátt fyrir það sem hv. þingmaður segir og ég vona að sé rétt, að þegar upp verði staðið komi þetta ekki til með að tefja lokatímasetningu verksins.

En þessar væntingar sem hv. þingmaður vísaði til voru nú bara sirka skitnar 1.300 millj. kr. í þúsund milljarða dæmi þjóðarbúskaparins. Átti þá endilega að velja þetta fólk til að slá á væntingarnar hjá? (Gripið fram í: ... skemmt sér rosalega vel.)

Hins vegar fékk allt að ganga hér. Framkvæmdum við álverksmiðjuna á Grundartanga var flýtt. Framkvæmdum við Hellisheiðarvirkjun var flýtt. En þar voru hinar háu upphæðir. Hefði nú ekki mátt fresta þar um 1–2 milljarða (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að slá á væntingar Vestfirðinga? (Forseti hringir.)