138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

ókeypis skólamáltíðir.

39. mál
[14:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég held að ég fari rétt með, og hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir þekkir það líklega betur en ég, en tilfinning mín er sú að þegar farið var að bjóða upp á heitar máltíðir í grunnskólum Reykjavíkurborgar, svo dæmi sé tekið, hafi það haft mjög jákvæð áhrif á allt skólastarf. Nemendur urðu mjög ánægðir með að fá máltíðir í skólunum. Þetta er gott fyrir skólaandann svo ekki sé minnst á hin rökin sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson fór yfir hvað varðar velferð nemenda. Í raun má segja að bara það að hafa máltíð í skólum geri það að verkum að þetta sé gott fyrir skólasamfélagið og ekki síst hvernig t.d. kennarar og nemendur jafnvel borða saman. Ég hef borðað í nokkrum skólamötuneytum á mínum tíma í embætti menntamálaráðherra og það hefur verið alveg einstaklega gaman að sjá hvað þetta er líka í raun mikill samkomustaður.

Það er rétt, ég hyggst skoða þetta nánar, en það er ljóst að þarna er um að ræða háar fjárhæðir þannig að það þarf að skoða þær í samhengi við annað og hvort unnt sé að draga úr kostnaði á öðrum sviðum. Ég tel líka mikilvægt að við förum betur yfir þessa útreikninga, að hverju þetta snýr og hvort hægt sé að hugsa sér að þarna komi saman einhver styrkur inn eða eitthvað slíkt, hvort einhverjir slíkir möguleikar væru í stöðunni. Ég ætla ekki að lofa neinu að sinni, en tel sjálfsagt að þetta verði tekið til frekari skoðunar.