141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

ummæli forsætisráðherra um stöðu kjarasamninga.

[11:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Forseti fer með dagskrárvald og ber ég mikla virðingu fyrir því. Þess vegna er ekki við hæfi að hæstv. forsætisráðherra komi hér og tjái sig um það hvaða mál eru á dagskrá þingsins. Hins vegar vil ég beina því til forseta [Hlátur í þingsal.] og tek ég undir með hæstv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins Illuga Gunnarssyni, að hæstv. forsætisráðherra verði gefið tækifæri á því að ræða þessi mál við fyrsta tækifæri. Ef ekki í dag, þá strax eftir helgi því það eru ekki þingfundir á föstudögum eins og við vitum. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir sem hæstv. forsætisráðherra fer fram með á hendur aðilum vinnumarkaðarins þar sem hún talar um svikabrigsl. (Forseti hringir.)

Fyrirgefðu, frú forseti, ég segi þetta til að rökstyðja það að málið komist á dagskrá

(Forseti (RR): Um fundarstjórn forseta.)

Líklega kemur beiðni um það frá viðkomandi aðilum að það verði sérstök umræða um þetta mál því ekki er hægt að una við að hæstv. forsætisráðherra standi í ræðustól og tali (Forseti hringir.) niður til sinna samningsaðila.