141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[13:55]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt að verðtryggingin getur áfram verið vandamál þó að gripið verði til þeirra aðgerða sem ég lýsti og þess vegna þarf að ræða það vandamál sérstaklega. Við framsóknarmenn höfum lagt fram lagafrumvarp í þeim efnum og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur að sjálfsögðu verið dugleg að ræða verðtrygginguna og vandamálin við hana. Sú vinna þarf að halda áfram burt séð frá þessu, það er alveg rétt.

Það er líka alveg rétt að með því að gera fólki auðveldara að borga lánin sín í bönkunum er á vissan hátt verið að aðstoða bankana. En þá komum við að því sem er svo grátlegt, þ.e. að ríkisstjórnin skyldi ekki nota tækifærið á meðan hún réð yfir bönkunum til þess að ráðast í almenna leiðréttingu. Þvert á móti voru lánin færð úr bönkunum að miklu leyti yfir í Íbúðalánasjóð, sem er auðvitað rekinn af ríkinu, þannig að þetta væru þá fyrst og fremst styrkir ríkisins til sjálfs sín. Það er vissulega áminning um hversu grátlegt það er að ekki skuli hafa verið tekið á málinu á meðan stjórnvöld höfðu tækifæri til þess, þ.e. áður en bönkunum var skipt upp.

Ég vil þó ítreka það sem ég nefndi áðan, að í ljósi þess að þetta gagnast bönkunum finnst mér mikilvægt að þeir komi að málinu með ákveðinni eftirgjöf með því til að mynda að breyta 110%-leiðinni, sem nú er kannski orðin 120–130%, í 100% leið, og færa lánin yfir í 100% af fasteignamati.