144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umtalsefni þá sérkennilegu stöðu sem komin er upp hér í þinginu í meðferð fjárlagafrumvarps og tengdra frumvarpa er lúta að fjármögnun fjárlaga.

Við höfum orðið vitni að því að forsætisráðherra hefur sagt að hann vilji sjá hvernig þinginu gangi að vinna með fjárlagafrumvarpið og þar með eiginlega gefið það út að hann treysti á tilstyrk stjórnarandstöðunnar til að breyta fjárlagafrumvarpinu. Það hefur líka komið fram hjá aðstoðarmanni hæstv. forsætisráðherra, hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni, að þingflokkur Framsóknarflokksins í heild sé með fyrirvara við matarskattinn illræmda.

Ekki nóg með það heldur kom hér fram í umræðunni í gærkvöldi staðfesting á því frá einum hv. þingmanni Framsóknarflokksins sem tók til máls seint og um síðir í umræðunni í gær.

Það liggur sem sagt ekki fyrir þingmeirihluti við þetta frumvarp. Þetta er orðin mjög undarleg staða og alvarleg og við hljótum að kalla eftir því að það verði rætt í forsætisnefnd hvort verið sé að leggja fram með boðlegum hætti frumvörp er lúta að grundvallarforsendum fjárstjórnar ríkisins.

Við þurfum líka að fá hér upp í ræðustól þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa farið mikinn í opinberum yfirlýsingum um andstöðu við matarskattinn en hafa ekki látið sjá sig mikið hér í þingsölum þegar hann hefur verið til umræðu. Hvernig svara þingmenn Framsóknarflokksins athugasemdunum frá innlendum matvælaframleiðendum, frá innlendum landbúnaði, gagnvart þessum breytingum? Hvernig svara þeir þeim greiningum sem liggja fyrir frá Alþýðusambandi Íslands um hversu hart þessi breyting muni leika lágtekjufólk í landinu? Framsóknarmenn verða nú að koma fram (Forseti hringir.) og standa undir því að vera í ríkisstjórn og sýna sig í þingsal og taka til máls um þetta mál.