144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það ætti ekki að vera þörf á því að minnast á það í þingsal að fjárlög og tekjuöflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar eru stefnumarkandi plögg í ríkisfjármálum viðkomandi ríkisstjórnar. En nú bregður svo við að við þingmenn erum í umræðum, sem við tökum að sjálfsögðu alvarlega, enda tökum við ríkisfjármálin alvarlega, um frumvörp sem kemur sífellt betur og betur í ljós að þeim stendur til að breyta — og ég fagna því í sjálfu sér — á milli umræðna.

Þetta er fullkomið stefnuleysi í ríkisfjármálum. Ég vil fara fram á það við forseta að hann kalli saman þingflokksformenn og forsætisnefnd því að það þarf að úrskurða um það hvort ekki þurfi að ætlast til þess að ríkisstjórnin komi sér saman um stefnu í ríkisfjármálum áður en við förum að senda út frumvörp til umsagnar og fá viðbrögð á málum sem á að breyta í grundvallaratriðum.

Það er verið að niðurlægja þingið með vinnubrögðum sem þessum og ég sem þingmaður fer fram á það að þau frumvörp sem við eigum að fjalla um hér og sendum út til umsagnar endurspegli stefnu þeirra sem þau leggja fram en séu ekki einhvers konar skiptimynt sem geti bara breyst eftir því hvernig þingmönnum líður frá degi til dags og hvað þeir hafa sagt í blogginu sínu kvöldið áður.