144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og vildi inna hann nokkuð eftir þeim áhyggjum sem hann hefur af áhrifum frumvarpsins á gerð kjarasamninga á vetri komanda. Nú hefur hv. þingmaður reynslu af því að sitja á stól fjármálaráðherra og semja við aðila vinnumarkaðarins um þessa hluti og það eru nokkur atriði þarna sem koma manni nokkuð á óvart.

Ég vil sérstaklega nefna það að ætla einhliða að falla frá greiðslum til lífeyrissjóðanna vegna mismunandi örorkubyrði á milli sjóðanna. Nú var það fullyrt fyrr í umræðunni að þetta væru atriði sem sjóðirnir ættu að tryggja hver hjá öðrum, deila með sér þessum kostnaði. Engar ráðstafanir hafa af hálfu ríkisstjórnarinnar verið gerðar til þess, ekkert frumvarp lagt fram um það að sjóðirnir eigi að deila með sér örorkubyrðinni. Er það ekki svo að að óbreyttu mun þetta verða til þess að rýra stöðu sjóða erfiðisvinnufólks og þeirra sem eru í störfum sem fylgir örorka, svo sem eins og sjómanna, iðnverkafólks og annarra slíkra hópa, kannski ekki síst lífeyrissjóða eins og Gildi – lífeyrissjóðs? Mun aðgerðin ekki bitna einfaldlega á kjörum lífeyrisþega í þeim lífeyrissjóðum?

Kannast hv. þingmaður við það að um þetta hafi verið einhverjir samningar við verkalýðshreyfinguna eða við aðila vinnumarkaðarins eða er hér um einhliða ákvörðun hæstv. fjármálaráðherra að ræða? Hann hafi vantað meiri afgang í ríkissjóð og hafi því ákveðið að taka það út á lífeyrisþegum í lífeyrissjóðum landsins, þ.e. þeim sem eru á almennum vinnumarkaði vegna þess að lífeyrisþegar í opinberu sjóðunum halda auðvitað fullum réttindum.