145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst þessi atburður vera tilefni til þess að hv. forsætisnefnd taki málið aðeins til skoðunar. Mér fannst hæstv. utanríkisráðherra sýna þinginu ansi mikla lítilsvirðingu. Hann kemur upp í pontu og talar um að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, varaþingflokksformaður Samfylkingarinnar, hafi sagt að hún mundi gera athugasemd við það ef hann færi úr húsi. Ég hélt satt að segja að hann ætlaði í framhaldinu að segja: Þess vegna fer ég ekki úr húsi vegna þess að ég geri auðvitað það sem þingmenn vilja og ætlast til af mér í þessum sal. En nei, hann segir þvert á móti: Ég ætla nú samt að rjúka af stað, og er farinn.

Herra forseti. Það hlýtur að vera ástæða til þess fyrir forsætisnefnd að fara yfir þetta og íhuga aðeins stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu hvað svona lagað varðar.