150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég las yfir þetta mál var mér ekki alveg ljóst um hvað það fjallaði. Ég var að vonast til þess að ræða hv. þingmanns, sem var vissulega ágæt, myndi varpa ljósi á það, en hún gerði það reyndar ekki. Mér finnst svolítið athyglisvert að við erum að ræða um nýja stofnun. Við vorum rétt áðan að ræða nauðsyn þess að straumlínulaga ríkisrekstur en hér erum við að tala um nýja stofnun sem ég skil ekki betur — og þess vegna vil ég endilega að hv. þingmaður leiðrétti mig — en að eigi að taka að sér verkefni sem dómstólar hafa í dag, t.d. varðandi símhleranir, húsleitir og líkamsleitir. Ég átta mig ekki á því af hverju framselja þetta vald dómstóla. Erum við þá að búa til fjórða dómstólinn? Hvað á hann að heita og hvað á hann að gera að öðru leyti?

Nú er starf lögreglumannsins flókið, ráðningarsamband hans við vinnuveitandann er líka flókið því að hann er skipaður embættismaður til fimm ára. Ef einhver stofnun, óháð vinnuveitandanum, á t.d. að fara að taka ákvarðanir um meint brot lögreglumanns í starfi skil ég ekki hvernig það á að ganga upp. Ég skil ekki heldur nauðsyn þess að einhver stofnun á vegum Alþingis, lögreglustofnun Alþingis, taki við því verkefni dómstóla, eins og ég sagði áðan, að samþykkja símhleranir og húsleitir. Mig langar til þess að spyrja: Hefur þingmaðurinn eða flutningsmenn einhverjar hugmyndir um það hversu fjölmenn þessi stofnun ætti að vera, hver rekstrarkostnaðurinn ætti að vera? Ætti að greiða hann úr ríkissjóði? Ætti þessi stofnun að taka við tilteknum (Forseti hringir.) verkefnum dómstóla?