150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:38]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðuna. ´Ég spyr: Enn ein stofnunin? Hvernig á hún að ná markmiðum sínum? Það er augljóst að lögreglan er ekki á móti því að það sé haft eftirlit með henni því hún vill hafa traust. Það mikilvægasta til að halda trausti til lögreglunnar er að störfin séu rækt þannig að það myndist traust. Traust er það mikilvægasta sem lögreglan á. Lögreglumenn hafa það að markmiði að vinna starf sitt sem best og vona að félaginn sé ekki að gera eitthvað rangt sem skemmi fyrir hinum.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað er það sem vantar upp á það eftirlit sem er núna? Við höfum ríkissaksóknara sem vinnur að verklagsreglum og leiðbeiningum með lögreglunni og gefur út fyrirmæli. Við erum með héraðssaksóknara sem fer með þessi mál og sér um að rannsaka þau. Við höfum þá núna 11 embætti. Ef embætti héraðssaksóknara er óhæft að einhverju leyti til að takast á við eitthvert mál er hægt að flytja það til annarra lögreglustjóra og svo höfum við dómstólana. Við höfum umboðsmann Alþingis. Þannig að við höfum fullt af leiðum til að hafa eftirlit með því hvernig framkvæmdin er. Við lærum náttúrlega af framkvæmdinni. Ef einhver gerir mistök er lært af þeim. Hvað vantar upp á? Af hverju þarf að búa til enn eina stofnunina? Eigum við ekki frekar að styrkja lögregluna og styrkja þessi ferli fremur en að eyða peningum og tíma í svona stofnun?

Svo langar mig líka að benda á: Hvernig á að vera einhver þekking á rannsóknum í þessari stofnun ef það mega ekki vera lögreglumenn heldur einhverjir óháðir lögreglunni? Þar væri engin reynsla eða þekking á rannsókn mála.