151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

almenn hegningarlög.

132. mál
[18:19]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Hér erum við með til meðferðar og umræðu þarft mál sem ég bind vonir við að geti orðið að lögum strax á þessu þingi. Ég ætla að leyfa mér að tala út frá reynslu minni úr fyrra starfi, fyrst hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og síðar hjá ríkissaksóknara. Þar var það reynsla mín að þau mál, gjarnan í tengslum við sambandsslit, sem komu upp af þessum toga — þ.e. áreiti í einhverri mynd, umsátur, stöðugar ógnanir sem geta falist í því einu að vera alltaf að hafa samband, vera alltaf að fylgjast með, vera alltaf nálægt — eru með því erfiðara sem við er að eiga frá sjónarhóli kerfisins, svo ég setji þau gleraugu nú á mig. Vitaskuld á það fyrst og fremst við um brotaþola, hvað þetta er erfitt við að eiga. En það sem gerir þessi mál kannski svo sérstök er að þegar svona háttsemi er í gangi þá vita báðir aðilar, ef um er að ræða tvo aðila eins og oftast er, algerlega hvað er í gangi og hvað á sér stað, hvers konar háttsemi er á ferðinni og hvað henni er ætlað að gera. Það þarf t.d. ekki að beita líkamlegu ofbeldi. Það þarf ekki að ryðjast inn á heimili annarrar manneskju því ógninni er náð fram með þessum hætti. Það er alveg skýrt af hálfu geranda hvað hann ætlar sér með þessu og hvaða afleiðingum hann eða hún vill ná fram.

Þetta er auðvitað óþolandi ástand fyrir þann sem fyrir því verður. Þess eru því miður dæmi að svona háttsemi standi lengi yfir, grófustu dæmin hafa kannski verið menn sem hafa t.d. stundað að keyra fram hjá Kvennaathvarfinu, sem er þá einhver leið til þess að viðhalda ofbeldi gagnvart brotaþola sem þangað hefur flúið vegna ofbeldis. Svona hegðun er ætlað að skapa óöryggi, og senda skilaboð um að viðkomandi eigi von á frekara áreiti eða jafnvel ofbeldi. Það á enginn að þurfa að þola. Ég nefndi áðan mína fyrri reynslu úr starfi vegna þess að lögreglan, ákæruvaldið og dómstólar eiga að hafa góð verkfæri til að taka á svona háttsemi. Þetta frumvarp tel ég að muni bæta í verkfærakistu kerfisins og það er auðvitað vel.

Það er ekkert einhlítt um aðstæður brotaþola. Ég nefni þó að klassísk birtingarmynd þessara mála er að kona verður fyrir þessu af hálfu fyrrverandi maka. Eins og ég segi, dæmin eru mjög mörg og birtingarmyndirnar ólíkar. Ég ætla að leyfa mér að halda mig við þetta dæmi því að það getur auðvitað gerst að kona í þessum aðstæðum sem á börn standi þá um leið frammi fyrir því að börnin hennar búi við sama veruleika og hún. Það mætti þess vegna að mínu mati fjalla um það frekar í greinargerð að þegar svo háttar til horfi það t.d. til refsiþyngingar því að það felst auðvitað líka í því ofbeldi gagnvart börnunum sem búa við slíkar aðstæður þó að háttseminni sé kannski bara beint að móður þeirra. Ég nefni að mér þætti koma til greina að fjalla um það atriði frekar og þá sem refsisjónarmið. Með ákvæðinu er víður refsirammi og sjálfsagt þegar verið að setja svona nýtt ákvæði að löggjafinn gefi kannski strax í upphafi einhver viðmið um það til hvers eigi að horfa. Aðrar birtingarmyndir sem eru nokkuð algengar, bæði innan lands og erlendis — brot af þessu tagi eru auðvitað þekkt um allan heim því miður — eru t.d. þegar algjörlega ókunnug manneskja fær af einhverri ástæðu brotaþola á heilann, situr um fyrir henni eða honum, fylgist stöðugt með, hefur samband aftur og aftur. Dæmin af svona háttsemi eru alls konar.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að hafa um þetta sérstakt ákvæði þótt vitaskuld séu í hegningarlögum ákveðin ákvæði sem eiga að geta náð utan um margt af því sem þarna er. En það er rétt, eins og hæstv. dómsmálaráðherra nefndi, að þröskuldurinn getur verið hár og svona háttsemi er oft óræðari en svo að þau ákvæði sem við eigum í dag nái alltaf utan um hana. En með því að setja sérstakt ákvæði sendum við líka lögreglu mikilvæg refsipólitísk skilaboð um það hver vilji löggjafans sé og að taka eigi þessa háttsemi föstum tökum.

Varðandi orðalag ákvæðisins sjálfs er ég sammála því að tungutakið þurfi að vera þannig að það geti lifað af tæknibreytingar. Ég sé í greinargerð, á því hvernig orðalagið er og ákvæðið er uppbyggt, að upptalningin er ekki tæmandi því að þar segir „með öðrum sambærilegum hætti“. Ég velti fyrir mér hvort kannski hefði mátt bæta við orðalagi úr ákvæðinu um nálgunarbann þar sem talað er um að raska friði á annan hátt. Það myndi þá undirstrika að mínu mati enn frekar að hér þurfi ekki að vera um að ræða eiginlegar hótanir í þrengri merkingu, þetta sé hegðun sem raskar friði og friðhelgi annarrar manneskju. Mér finnst orðalagið í sjálfu sér ágætt, að nefna að elta, fylgjast með, setja sig í samband og svo sitja um en mögulega mætti skoða hvort þetta orðalag gæti mögulega bætt einhverju þarna við og það væri þá kannski líka til að undirstrika enn frekar tengslin við nálgunarbannið, að sama orðalag sé þarna undir, að raska friði og friðhelgi. Ég nefni það nú bara hér í fyrstu umferð.

Ég er þeirrar skoðunar að löggjafinn eigi auðvitað að vera alveg skýr um að það varðar refsingu að brjótast inn í einkalíf annarrar manneskju. Þessi brot felast í því í mínum huga að verið er að brjótast inn í einkalíf annarrar manneskju með þeim aðferðum sem ákvæðið lýsir. Fólk á auðvitað ekki þurfa að sæta því að þegar það kemur t.d. heim úr vinnu sitji alltaf einhver úti á bílastæði og horfi á það, hringi stöðugt o.s.frv. Ég held að allir geti tengt við það hvaða hegðun er þarna, þetta er kannski eitthvað sem margir þekkja bara úr menningunni og bíómyndunum, en það er stöðug og viðvarandi og stundum langvarandi ógn sem í þessu felst og mér finnst mjög mikilvægt að ákvæðin nái því skýrt fram að það þurfi ekki eiginlegar eða bókstaflegar hótanir til því að í háttseminni sjálfri er fólgin hótun. Að setja sig í samband við manneskju aftur og aftur, sem biður um að því verði hætt, að hringja á öllum tímum dags dögum saman, er ofbeldisfull hegðun sem er almennt til þess fallin að valda ótta eða kvíða.

Mig langar til að taka undir það sem segir í greinargerð um málið, að ákvæðið sé til þess fallið eða sett til að treysta enn frekar vernd kvenna og barna hér á landi og ég held að ekki sé hægt að líta alveg fram hjá þeim veruleika að þetta er refsiákvæði sem rammar inn ákveðinn veruleika kvenna. Konur sem hafa mátt búa við ofbeldi í nánum samböndum verða oft fyrir þess háttar brotum að loknu sambandi. Þess vegna held ég að það skipti máli að við séum meðvituð um það.

Aðeins varðandi refsirammann, þar er sett hámark sem er fjögurra ára fangelsi, sem undirstrikar að löggjafinn lítur svo á að hér sé um alvarleg brot að ræða og ég tek undir það. Lágmarkið er sekt og það er auðvitað atriði sem kemur til skoðunar við meðferð málsins í allsherjarnefnd. Ég sá að ákveðin Norðurlönd hafa farið sömu leið. Ég velti því fyrir mér hvort þar væri kannski réttara að hafa fangelsi líka en ekki sekt að lágmarki, í samræmi við alvarleika brotsins. Það finnst mér atriði sem þarf að skoða betur en fyrsta brot væri þá að líkindum samkvæmt dómvenju skilorðsbundið fangelsi ef sú leið væri farin. Hérna held ég að megi líka hafa í huga að dómstólar hérlendis hafa yfirleitt farið þá leið að dæma refsingar í neðri mörkum þannig að þetta er atriði sem mér finnst að þurfi að ræða í meðförum nefndarinnar. Ég er ekki búin að mynda mér skoðun á því endilega en velti því upp.

Ég er ánægð með þetta mál og styð það. Ég tel það mikilvægt refsipólitískt mál og til þess fallið að styrkja réttarvernd þeirra sem fyrir þessum brotum verða. Ég vildi, fyrst ég er hérna uppi, taka undir sjónarmið sem fram komu áðan varðandi möguleika lögreglu til að fást við þessi mál og minna á að við höfum áður staðið hér og rætt málsmeðferðartíma hjá ákæruvaldi og dómstólum, og minni á að við hugum að því.

Svo myndi ég vilja í lokin hvetja dómsmálaráðherra til að skoða vandlega mál sem hún lagði fram á síðasta þingi en var ekki afgreitt úr allsherjarnefnd vegna þess að á málinu reyndust gallar. Það var mál sem hefði skert refsivernd kvenna fyrir sambærilegri háttsemi og hér er til meðferðar. Það laut að því að gera allar ærumeiðingar að einkarefsimálum. Þar átti að fella ákvæði í almennum hegningarlögum um ærumeiðingar úr gildi, gera þau að einkarefsimálum, ekki þannig að refsivernd væri alveg farin, en þetta voru m.a. b- og c-liður 2. töluliðar 242. gr. og svo ákvæði 234.–241. gr., en þær breytingar hefðu haft í för með sér að felldur hefði verið burt úr refsilöggjöfinni stór hluti þess kafla sem veitir æru og friðhelgi einstaklings vernd. Ég nefni þetta í því samhengi að talað var um það hér áðan að þessi brot gætu auðvitað líka átt sér stað á netinu og þess vegna gott að ákvæðið sjálft sé svona tæknihlutlaust. En þetta þarf allt að skoða í samhengi og hefði það frumvarp farið í gegn hefði brotaþoli t.d. sjálfur þurft að standa að því að upplýsa og bera kostnað af rannsókn þessara mála. Það hefði ekki lengur verið hlutverk lögreglu. Og með því veikist auðvitað réttarvernd einstaklinga fyrir brotum gegn friðhelgi og æru sem fylgja þessum málum líka oft. Með því hefðu verið tekin af lögreglu verkfæri og tækifæri til að rannsaka gróf friðhelgisbrot sem fólk verður fyrir á netinu, konur í sambærilegum aðstæðum og þessum, þannig að ég biðla til dómsmálaráðherra að láta vinna það mál betur og rýna út frá jafnréttissjónarmiðum áður en það yrði lagt fram að nýju.

En ég vil lýsa yfir ánægju minni með að þetta mál, umsáturseinelti, sé hingað komið, með þessum fyrirvörum sem ég hef nefnt núna, og bind vonir við að við eigum góðar umræður um málið innan nefndar og það fái að verða að lögum strax á þessu þingi.