152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska öllum þingmönnum til hamingju með kjörið og nýrri ríkisstjórn til hamingju og herra forseta til hamingju með sína skipan og óska öllum velfarnaðar í störfum sínum og að þau megi verða þjóð okkar til heilla. Sá sem hér stendur hélt sína jómfrúrræðu árið 2004 og fjallaði þá um vanlíðan vegna þess sem þá var afstaðið; óvænt aðild Íslands að Íraksstríðinu sem mér og mörgum öðrum leið illa yfir að vera eyrnamerktur.

Ég vík að því á eftir að samviska okkar sem þingmanna og ráðherra hlýtur öll að vera undir í störfum okkar hér. En fyrst og fremst vil ég bara minna okkur öll á það hvað við erum lánsöm þjóð. Þegar ég lít í kringum mig, allt frá forseta til þeirra sem hér sitja, og ber það saman við það sem við þekkjum í ýmsum öðrum löndum, meira að segja innan okkar eigin evrópska svæðis, þá held ég að við eigum að þakka fyrir það að hér er flest í betra standi en margar nágrannaþjóðir þurfa að sætta sig við. Ég held að við þurfum að horfa á það líka að það er óvenjumikil gæfa sem hvílir yfir okkur þegar við horfum til hversu auðug við erum. Það eru fiskimiðin gjöfulu, það er græna orkan sem allir vilja nýta, það eru landgæðin sem margir ásælast og laðar hingað ferðamenn í vaxandi mæli. Svo er það nýja búgreinin7 sem kannski er ekki mikið búið að ræða enn þá en er fiskeldið.(Forseti hringir.)

Þess vegna segi ég: Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er nóg til og ég legg eindregið til að við gerum það sem gert var (Forseti hringir.) að hluta til í fyrra, að við látum 100.000 kr. skatta- og skerðingarlaust renna til þeirra sem minnst hafa í samfélaginu, öryrkja og eldri borgara. — Ég hélt að tvær mínútur liðu ekki svona hratt.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að tvær mínútur líða býsna hratt í ræðustól Alþingis.)