152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er komin ný ríkisstjórn í Þýskalandi. Það var merkilegt að fylgjast með myndun þeirrar ríkisstjórnar, þetta er miðju-frjálslynd vinstri stjórn. Hún hefur verið í myndun frá því að kosningar voru í Þýskalandi, eða daginn eftir að okkar kosningar fóru fram hér. Það var svolítið öðruvísi staðið að þeirri myndun; strax þremur vikum eftir kosningar var þýska þjóðin upplýst um það hvað flokkarnir hefðu náð saman um og í hverju þyrfti að vinna betur. Þannig að þýska þjóðin var upplýst um hvert einasta skref sem ríkisstjórnarflokkarnir þar tóku, annað en hér: Ekki einu sinni þingmenn stjórnarflokkanna fengu að vita hver staðan var allar þessar átta eða níu vikur sem ríkisstjórnarmyndunin hér tók.

Það er svolítið gaman að fylgjast með þessari nýju frjálslyndu miðjustjórn í Þýskalandi sem leggur mjög mikla áherslu á og er mjög framsækin í loftslagsmálum. Hún er ábyrg í efnahagsmálum. Það er jafnt kynjahlutfall í ríkisstjórninni. Hún setur heilbrigðismálin í algeran forgang, allt tímasett, mælanleg markmið sem fylgja þarna, og síðan leyfir hún sér meira að segja að setja svolítið umdeild frelsismál á dagskrá, hún þorir það. Ég óska henni farsældar í sínum störfum. Það skiptir máli að Þýskaland verði áfram jafn framsækið og það hefur verið, hvort sem það er á sviði efnahagsmála eða annarra mála. En það þarf, og því gerir nýr stjórnarsáttmáli grein fyrir, að taka til í loftslagsmálum. Ég óska hinni nýju stjórn velsældar. En um leið verð ég að segja að ég kveð samt með ákveðnum trega en þó þakklæti Angelu Merkel, stjórnmálaskörung, leiðtoga, ekki bara Þýskalands heldur Evrópu. Hún hefur verið svo sannarlega verið fyrirmynd margra, ekki síst kvenna um allan heim. Þó að ég hafi getað gagnrýnt hana í gegnum tíðina hefur hún þorað að standa með sannfæringu sinni. Hún hefur verið með faðminn opinn þegar tekið hefur verið á móti flóttafólki þrátt fyrir mikla gagnrýni innan eigin raða og frá hægri öfgamönnunum í Þýskalandi sem finnast innan flokka, bæði hennar flokks en ekki síst frá AfD-flokknum. Það var táknrænt að þýska þingið kvaddi hana með dynjandi lófataki nema flokkur hægri öfgamanna sem gerði það ekki. Ég segi: Þökk fyrir, kæra Angela Merkel.

(Forseti (BÁ): Forseti ítrekar það sem áður var sagt, að ræðutíminn er tvær mínútur, ekki tvær og hálf mínúta, og biður ræðumenn að hafa það í huga. Það er klukka í ræðustólnum sem gefur ræðumönnum til kynna hvað þeir eiga langan tíma eftir.)