152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Málefni tengd friðun jarðarinnar Dranga í Árneshreppi hafa verið nokkuð til umræðu núna í rúman sólarhring. Mig langar við þetta tilefni að benda hæstv. forseta á, sem hann veit augljóslega, að í ríkisstjórnarsáttmála þeirra stjórnarflokka sem nú hafa náð saman um endurnýjað samstarf til þessa kjörtímabils, er gert ráð fyrir að fallið verði frá hugmyndum um hálendisþjóðgarð, en í staðinn verði útfærð útvíkkun á grundvelli núverandi Vatnajökulsþjóðgarðs.

Í þessu samhengi vil ég rifja upp uppákomu sem varð hér í sumar sem varð þess valdandi að einn stjórnarþingmaður, núverandi innanríkisráðherra, hæstv. ráðherra Jón Gunnarsson, lýsti því yfir að ef ekki hefði verið búið að fresta þingi í aðdraganda kosninga hefði hann, og eflaust fleiri, en í öllu falli hann, dregið til baka stuðning sinn við þessa ríkisstjórn. Í því ljósi er fallið frá þeirri útvíkkun Vatnajökulsþjóðgarðs sem þá var fyrirhuguð í Skaftárhreppi.

Síðan gerist það á síðustu klukkustundum ráðherradóms hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar, að Drangajörðin er friðuð. Það sem ég vil beina hér til hæstv. forseta er að þegar mál sem tengjast gamla hálendisþjóðgarðinum og núverandi útvíkkuðum Vatnajökulsþjóðgarði koma til umræðu í þinginu þá beini hann því til fyrirsvarsmanna stjórnarinnar að þessi rúma reglugerðarheimild ráðherra til breytinga í þessa veru verði afnumin.