152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. „Enn jólin. Og alltaf jafn kær“, segir í fallega jólalaginu, sem við þekkjum öll svo vel. En eru jólin öllum jafn kær? Því miður er ekki svo. Ég ætla að tileinka þessa stuttu stund hér í störfum þingsins öllum þeim sem hafa verið að senda mér kveðjur, sem hafa verið að senda mér spurningar, sem hafa verið að biðja um hjálp. Mér þykir miður að ég get ekki hjálpað þessu fólki, mér þykir það virkilega miður. En ríkisstjórnin hefur heitið því að hún ætli að gera sitthvað til þess að greiða götu og aðstoða t.d. almannatryggingaþega. Mér er algerlega fyrirmunað að skilja það hvers vegna horft er upp á vaxandi kjaragliðnun hjá þessum fátækasta hópi í landinu, hvers vegna þau eru skilin óbætt eftir hjá garði einu sinni enn. Í fyrra var það nú svo að það kom eingreiðsla skatta- og skerðingarlaus sem hjálpaði margri fjölskyldunni mjög mikið og gerði þeim jólin eins ánægjuleg og kostur var, gaf þeim kost á því að eiga gott að borða og jafnvel kaupa jólagjöf og láta börnin sín ekki fara í jólaköttinn. Það er núna á valdi þessarar ríkisstjórnar að halda áfram að taka utan um fólkið okkar. Við munum koma með breytingartillögur við fjárauka og við munum biðja um eingreiðslu til handa þessum fátækasta þjóðfélagshópi. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórnin í allri sinni gæsku láti verða af því að hjálpa þessu fólki til að halda gleðileg jól.