152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Stjórnarsáttmálinn hefur að geyma skýra sýn á það hvert þessi ríkisstjórn vill fara í velferðarmálum, í efnahagsmálum og í atvinnumálum. Við fylgjum nýrri heilbrigðisstefnu sem markar heilbrigðiskerfið okkar á næstu árum. Við ætlum að auka aðgengi landsmanna að sérfræðiþjónustu með áherslu á greiðsluþátttöku sjúklinga og viðkvæma hópa. Við erum að halda áfram á þeirri vegferð sem hófst á síðasta kjörtímabili að efla geðheilbrigðisþjónustuna fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni, og við ætlum að leggja áherslu á geðheilbrigðisþjónustu í forvarnaskyni, ekki alltaf í viðbrögðum. Og áfram höldum við að reyna að efla geðheilsuteymin um land allt.

Við höldum líka áfram á þeirri vegferð að þróa fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir þannig að eldra fólk geti búið heima eins lengi og það kýs að gera, með áherslu á mun fjölbreyttari úrræði heldur en verið hefur. Við ætlum líka að endurmeta almannatryggingakerfi eldri borgara. Við byrjum á því, og það er fyrsta skrefið, að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna núna um næstu áramót. Það sama viljum við gera fyrir öryrkja, þ.e. við viljum bæta kjör þeirra og byrjum á því núna að setja 1% til viðbótar ofan á grunnlífeyri öryrkja. En við vitum líka að kerfinu þarf að breyta þar sem við drögum úr þessum vondu tekjutengingum, við viljum gera það skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Við viljum líka standa áfram að húsnæðisöryggi og gera réttarstöðu leigjenda betri skil. Við viljum og ætlum líka að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu þannig að störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.

Í fjárlaganefnd fjöllum við um fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar sem eru með 170 milljarða kr. halla, en samt stöndum við áfram vörð um velferðina.