152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:17]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir svarið. Ég velti fyrir mér í framhaldi af þessu svari, við getum svo sem deilt um hvort þessi aðgerð, að taka blóð úr hryssum, sé dýraníð eða ekki, ég er svo sem ekki þeirrar skoðunar. En aftur á móti er ég þeirrar skoðunar að þar sem menn ganga í kringum hross eigi þeir að gera það af mikilli virðingu og sýna hrossunum tillitssemi og fara vel með þau. Það kom líka fram áðan í máli hv. þingmanns að þetta væru meira og minna villihross og rétt er það og það er kannski hluti af því vandamáli sem fram kemur t.d. í þessu ágæta myndbandi — eða ekki ágæta, þetta er hræðilegt myndband — að það vantar töluvert mikið upp á að hrossin þýðist manninn og þau eru þar af leiðandi ekki tamin. Við þekkjum það nú líka svo sem þar sem hross eru tiltölulega þæg við þessar aðstæður, þar sem hlutirnir gerast á annan hátt. Spurning hvort menn þurfi ekki að ganga þá leið. Ég veit að vísu sirka hvert svarið verður frá hv. þingmanni, hún vill náttúrlega bara banna þetta. En ég velti líka fyrir mér varðandi bændur. Hún kom held ég inn á það áðan að þeir þurfi þá að fá það bætt að við séum að taka þessa búgrein af þeim. Hafa framsögumenn og flutningsmenn gert sér í hugarlund þá upphæð sem þarf að koma þar til?