152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:46]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þér, hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson. Ég er einmitt búinn að vera að segja að það er margt í atvinnulífinu, margt í sveitinni, margt til sjós sem er ekki fallegt og þannig verður það aldrei. Það er jafnvel margt í atvinnulífinu hérna á bryggjunni sem er ekki fallegt. Ég hef líka verið í sveit og er náttúrlega útskrifaður með gráðu í smalamennsku frá Steinahreppi undir Eyjafjöllum og flagga því náttúrlega að gamni mínu eins og þú varst að gera áðan. Þú ert að tala um að þetta leyndarmál hafi verið best varðveitta leyndarmál þessarar atvinnugreinar. Ég vissi auðvitað ekkert af því fyrr en það kom fyrir sjónir okkar í fjölmiðlum, kannski bara eins og þú, kæri vinur. En það er náttúrlega jafn slæmt fyrir það og það skrifa ég ekki upp á en ég veit og hef það eftir vísum og góðum manni að þeim hópi fólks sem tók upp þessa mynd hafi verið boðið að koma á sveitabæ þar sem þetta var allt gert með mikilli reisn og mikilli fagmennsku og taka upp hvernig þetta væri raunverulega gert. Því var hafnað. Það er gamla sagan, það á aldrei að flytja góðar fréttir. Aldrei góðar fréttir, bara vondar fréttir og bændur eiga að líða fyrir það.