152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við verðum að vera sammála um að vera algjörlega ósammála. Ég sé ekki hvernig það á að vera hægt að búa til fallega mynd af framkvæmd blóðtöku. Ég næ því bara ekki. Það er ekki hægt vegna þess að þetta er dýr og það vill ekki láta taka úr sér blóð. Við getum talað okkur græn og blá hérna í allt kvöld um þetta, staðreyndin er að þetta dýr er þvingað í blóðtökuna. Og eins og ég verð að ítreka enn einu sinni, gleymið því ekki, þetta er meri með folaldi, annars væri enginn tilgangur með að ná í blóðið heldur. Hvað verður um folaldið? Hvaða afleiðingar hefur þetta? Bara það eitt og sér ætti að vera nóg, bara afleiðingarnar af þessu fyrir merina og folaldið. Það ætti að vera nóg til að stöðva þetta. En tilgangurinn við að ná í þetta hormón, til að ráðast síðan á næsta dýr með hormónunum, þar erum við komin út úr öllu siðferði. Ég skil það vel að þeir sem gera þetta vilji ekki hafa það í beinni útsendingu. Það er alveg útilokað að þeir vilji það. Það er dregin upp glansmynd af því: Jú, jú, við getum gert það voðalega fallega og allir verða voða hamingjusamir og merin alveg skínandi glöð og skælbrosandi að láta taka úr sér blóð. Það verður aldrei, það stenst ekki. Alveg sama hvað við reynum að ímynda okkur það. Þetta er ofbeldi gagnvart dýri og gert til þess að níðast á öðru dýri. Það er staðreyndin sem við verðum að horfast í augu við. Þess vegna eiga ekki að vera neinar reglur, það á bara að banna þetta.