152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:51]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir svarið. Ég ætla kannski aðeins að dýpka það sem ég nefndi áðan. Ég vonast til þess að umræða hér og þessi tillaga verði a.m.k. til þess að bæði í atvinnuveganefnd og eftir atvikum annars staðar í samfélaginu verði gerð einhvers konar úttekt á eftirlitshlutverki og eftirlitsgetu Matvælastofnunar þegar kemur að svona máli. Þá er ég líka að vísa í önnur mál sem við þekkjum auðvitað úr umræðunni líka. Ég held að slíkt sé bara vel við hæfi í ljósi þess hvernig þetta mál er vaxið. Síðan get ég eiginlega ekki látið hjá líða að nefna líka, af því að mönnum hefur verið tíðrætt um það hér að þetta snúist að einhverju leyti um það að framleiða ódýrari matvæli, að það eru til margar aðrar leiðir til þess á Íslandi að framleiða ódýrari matvæli sem gætu þá kannski fengið stuðning, t.d. þegar við ræðum um tolla og landbúnaðarkerfið í heild sinni. Ágætt að halda því til haga líka í umræðunni. Það að framleiða ódýrari matvæli getur ekki verið útgangspunktur þegar við erum að hugsa um dýravelferð og búskaparhætti almennt.