154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

Störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Aðalsteinn Haukur Sverrisson (F):

Virðulegi forseti. Nú er liðið eitt og hálft ár frá ólögmætri innrás Rússlands í Úkraínu og því miður er ekki að sjá fyrir endalok. Þó eru vissulega jákvæð merki til staðar um að Úkraínumönnum takist að endurheimta sín landsvæði. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í þessari viku var stríðið í Úkraínu í brennidepli. Ýmsar ræður voru haldnar um stríðið en báru þó hæst ræður forseta Úkraínu og Bandaríkjanna. Án þess að fara með langt mál um innihald umræðunnar voru skilaboðin skýr: Stuðningur hins frjálsa heims gagnvart úkraínsku þjóðinni má ekki undir nokkrum kringumstæðum dvína. Barátta úkraínsku þjóðarinnar snýst um að viðhalda sjálfstæði sínu og landamærum. Hún er þó ekki eingöngu þeirra barátta. Frá lokum seinni heimsstyrjaldar er vart til skýrara dæmi um árás á lýðræði í hinum vestræna heimi og eiga allar frjálsar þjóðir hér hagsmuna að gæta. Við megum ekki sofna á verðinum eða þreytast í umræðunni í sameiginlegri baráttu. Þetta á einnig við um Ísland, við erum friðelskandi þjóð sem háði sína sjálfstæðisbaráttu án blóðsúthellinga og hefur sterka tilfinningu fyrir frelsi sínu og sjálfstæði. Frá stofnun lýðveldisins höfum við Íslendingar verið óhrædd við að styðja aðrar þjóðir sem stefna í átt að lýðræðisþróun og við höfum verið afdráttarlaus þegar kemur að stuðningi við úkraínsku þjóðina. Ég vil því nýta tækifærið hér í dag og brýna ríkisstjórnina til að viðhalda þeim stuðningi sem hefur verið sýndur til þessa og standa með Úkraínu í vegferð þeirra til áframhaldandi lýðræðis og sjálfstæðis.